Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 13:54:11 (1344)

2000-11-03 13:54:11# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það var margt sem hægt er að taka undir í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og það er rétt sem kom fram hjá honum að við höfum verið nokkuð margir djarfhugar og viljað geysast fram en hann hefur verið maður umhyggjunnar og kannski pínulítið afturhaldsseminnar líka um leið en auðvitað er það bara vel. Aðgát skal höfð við slík mál sem hér er á ferðinni.

Ég vildi taka það fram, hæstv. forseti, þótt ég hafi komið með athugasemdir áðan, þá voru þær fyrst og fremst til ábendingar um það sem betur mætti fara og líka til umhugsunar hvort betur eða öðruvísi ætti að fara með og beinist þá málið fyrst og fremst til iðnn.

Ég fagna þessu frv. og segi að það er stórt framfaraspor þegar litið er til þess að upp úr árinu 1970 sýndu aðilar olíuleit við Ísland áhuga, þá áttu stjórnvöld að sjálfsögðu að bregðast við sem hér hefur verið gert núna tæpum 30 árum síðar með framlagningu frv. til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Það mun skapa erlendum aðilum réttaröryggi og sambærilegt starfsumhverfi og þeir hafa verið að starfa við annars staðar, t.d. í Norðursjó og víðar. Þetta mál er þess eðlis að nú er hægt að halda áfram. Komi ekki erlendir aðilar að þessu máli nú, þýðir það að við verðum að vinna heimaverkefni okkar betur, rannsaka enn frekar og gera þennan kost álitlegri. Það er af nógu að taka og þetta er hið besta verk. Við erum á leið fram á við og ríkisstjórnin er með mörg spennandi verkefni á döfinni og hefur verið að vinna að. Þetta er eitt þeirra verka sem mun örugglega skila góðu búi þegar fram líða stundir.