Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:31:08 (1348)

2000-11-03 14:31:08# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Einhvern veginn finnst mér ég hafa heyrt þessa ræðu áður, þótt það hafi verið úr munni annars ráðherra. Hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir fór yfir sögu þessara mála. Hún segir að fyrirkomulagið núna sé ódýrara en áður var. Að sjálfsögðu er ódýrara að skoða aðeins örlítinn hluta húsnæðis en að skoða allt húsnæðið en öryggið er minna. Við erum að fjalla um öryggismál.

Hæstv. ráðherra segir að þetta hafi verið unnið í góðu samráði við rafverktaka og alla helstu hagsmunaaðila í þessum málum. Staðreyndin er sú að þeir hafa mjög skiptar skoðanir. Margir þeirra eru afar gagnrýnir á þetta nýja fyrirkomulag. Þess vegna vildum við, til að þróa þetta kerfi áfram svo það þjóni hagsmunum landsmanna, að skipuð yrði nefnd til að taka þátt í þeirri þróunarvinnu.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Ráðherrann hæstv. vísaði í vinnuhóp sem skipaður var í samráði við mig sumarið 1999. Það er alveg rétt að við ræddum það fyrrv. hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, og ég hvernig að þeirri skipan skyldi staðið. En vinnuhópurinn klofnaði vegna þess að einn fulltrúanna fékk því ekki framgengt að nefndin ynni sína vinnu á þeim forsendum sem um var rætt. Í áliti hans segir m.a., með leyfi forseta:

,,Því miður getur undirritaður ekki tekið undir fullyrðingu í bréfi, sem fylgir niðurstöðum vinnuhópsins til ráðherra, að ástand rafmagnsöryggismála sé gott og tryggi vel öryggi raforkunotenda. Til að unnt sé að setja fram slíka fullyrðingu hefði þurft miklu ítarlegri rannsókn.``

Síðan birtir nefndin og ráðuneytið skýrslu sem ber heitið Árangur af breyttu skipulagi. Síðan talar hæstv. ráðherra á þá lund sem hún gerir hér. Mér finnst þetta óskammfeilið.