Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:32:11 (1349)

2000-11-03 14:32:11# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki hissa á að hv. þm. taki eftir því að ekki er búið að skipta um stefnu í iðnrn. þó að þar komi nýr ráðherra. Reyndar tel ég mikilvægt að stjórnsýsla okkar sé ekki þannig að með nýjum ráðherra sé ávallt skipt um stefnu, þá er ég hrædd um að hún væri ekki eins sterk og raun ber vitni.

Skýrslan sem hv. þm. vísaði til og ég kom að í máli mínu sýnir að mikið hefur verið unnið í þessu máli af hálfu ráðuneytisins. Það hefur verið tekið tillit til sjónarmiða hv. þm. og farið í ákveðna vinnu til þess að reyna að átta sig á því hvort við værum á réttri leið eður ei. Niðurstaðan er sú að ráðuneytið er þeirrar skoðunar að við séum á réttri leið og að ekki verði horfið til fyrra fyrirkomulags í þessum efnum. Þannig standa málin.

Hv. þm. hefur fulla heimild til þess að hafa athugasemdir við þessi vinnubrögð og þessa stefnu. Hún er nú engu að síður þessi. Hv. þm. gagnrýndi að þetta nýja fyrirkomulag væri ódýrara vegna þess að hver sá sem hefur með rafmagnsmál að gera sé ekki rannsakaður sérstaklega en það er fyrirkomulag sem aðrar þjóðir hafa verið að taka upp. Við erum því sannarlega ekki að sýna neitt minni ábyrgð í þessum efnum en aðrir.

Ég get hins vegar alveg tekið undir það með hv. þm. að þetta er eflaust ekki fullkomið frekar en nokkuð annað sem maðurinn setur á laggirnar eða það sem við setjum hér í lög og reglur.