Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:34:23 (1350)

2000-11-03 14:34:23# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ef kerfið er ekki fullkomið eða ekki nægilega gott, ber okkur þá ekki að leita leiða til að bæta kerfið? Ég hefði haldið að okkur bæri að stefna að því, eins og við gerum reyndar tillögu um hér. Það hefur engin stefnubreyting orðið við ráðherraskiptin, segir hæstv. iðnrh. Ég spyr sjálfan mig: Hver stýrir för? Hvaða hagsmunaaðilar stýra hér för? Þetta er mjög umdeilt og ábyrgir aðilar sem vinna við þessi mál staðhæfa að þau séu ekki í nógu góðum farvegi. Við gerðum ítarlega úttekt á viðhorfum þessara hagsmunaaðila og meiri hlutinn kemur fram með það sjónarmið að okkur beri að breyta þessu kerfi. Mér finnst að við eigum að láta skynsemina ráða hér og ef hún kallar á stefnubreytingu þá eigum við að breyta stefnunni.

En varðandi þennan vinnuhóp þá er það náttúrlega sérstakt umræðuefni út af fyrir sig hvernig Alþingi Íslendinga ætlar að standa að rannsóknarvinnu af þessu tagi. Ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. fyrrv. iðnrh. hafi andað öllum stundum niður í hálsmálið á þessum vinnuhópi og reynt að stýra vinnu hans inn í mjög ankannalegan farveg. Það leiddi til þess minni hluti nefndarinnar fékk því ekki framgengt að sú nauðsynlega rannsóknarvinna sem hefði þurft að sinna yrði framkvæmd, enda klofnaði nefndin. Þrátt fyrir það leyfir ráðuneytið sér að birta skýrslu undir fyrirsögninni Árangur af breyttu skipulagi, enda þótt fram kæmi að þriðjungur nefndarinnar teldi að málin væru nú í verra fari en þau voru áður.