Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:38:03 (1352)

2000-11-03 14:38:03# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., GE
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það er ósköp eðlilegt að það hitni í mönnum undir þessari umræðu. Hún er ákaflega merkileg. Ég verð að segja það að hæstv. ráðherra hefur tilteinkað sér sjónarmið og viðhorf sem ég hygg að séu ekki djúpt hugsuð. Ég held að hæstv. ráðherra hafi einfaldlega fengið þessi viðhorf afhent og að nákvæmlega þessi svör og þessi ræða sé skrifuð af sama manninum og lagði fyrrv. ráðherra í hendur svör og upplýsingar í þessum málum.

Það er ótrúlegt að heyra, herra forseti, að hæstv. ráðherra telur ástandið í rafmagnseftirlitsmálum vera gott. Ástandið er þannig, herra forseti --- ég veit að ráðherranum er ekki kunnugt um ástandið --- að það eru 40 þús. óskoðaðar húsveitur í Reykjavík. Það eru 40 þús. húsveitur óskoðaðar og þar af er hluti með gömlum lögnum, eldgömlum lögnum með einangrun sem nánast er orðin ónýt. Þetta er vitað. Þetta vita menn sem unnið hafa í þessari iðngrein og hafa miklar áhyggjur af. Það eru svör sem hæstv. ráðherra ætti að hafa miklar áhyggjur af og ég vitna alveg hikstalaust um að þau eru rétt. Ég hef ekki hitt einn einasta rafvirkja, sem þarf að standa ábyrgur fyrir þessu áliti, sem ekki hefur áhyggjur einmitt af þessu.

Hve margar húsveitur heldur hæstv. ráðherra að séu óskoðaðar á landinu, gamalveitur? Þær eru um 70 þús. Það eru um 70 þús. húsveitur á landinu sem ekki hafa verið skoðaðar í yfir tvo áratugi. Sumar húsveitur hér (Gripið fram í.) í Reykjavík hafa sennilega ekki verið skoðaðar í fjóra áratugi. Þessi mál voru í ákveðnum ólestri og það þurfti að taka á þeim. En þá valdi ráðuneytið þessa aðferð sem er hvorki viðurkennd í Noregi né í Danmörku og ekki einu sinn Þýskalandi, sem þó er verið að kópera eftir.

Ég verð að segja, af því mér er kunnugt um það og hef séð reikninga, að hver einasta skoðun er framreiknað u.þ.b. 70% dýrari núna en skoðunin í gamla rafmagnseftirlitinu. Það er vegna þess að hver einasta skoðun fer þannig fram að beðið er um úttekt og skoðunarstofa, sem er bara staðsett í Reykjavík --- það er bara til skoðunarstofa í Reykjavík --- fer út á land með tilheyrandi kostnaði til að gera úttektina. Þess vegna verður kostnaðurinn svona mikill. En í heildina tekið, ef ekki eru skoðuð nema innan við 10% af raflögnum eða nýlögnum af þessum eftirlitsaðilum, þá hlýtur það náttúrlega að vera ódýrara en þegar framkvæmd var nánast að segja alskoðun, sem ég er ekkert viss um að hefði átt að vera.

Við skulum skoða hver ber ábyrgðina. Hver ber ábyrgðina í þessum málum? Það er hver og einn húseigandi sem gerir sér engan veginn grein fyrir því að raflagnir í húsveitum eru á hans ábyrgð. Ég vildi óska að hæstv. ráðherra stæði klár á því að fólk er að fikta --- ég kalla það að fólk sé að fikta í rafmagni --- og reyna að bjarga sér, ekki síst á tímum sem er vont er að fá iðnaðarmenn til vinnu. Það býður hættunni heim. Hvað með gripahúsin? Hvað með hesthúsin? Hvað með alla brunana undanfarið? Hafa menn komist að niðurstöðu um af hverju þessar þeir hafi orðið? Ég fullyrði að í flestum tilvikum hefur mátt rekja það til einhvers konar vanbúnaðar á rafmagni.

Þess vegna er það að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson förum fram á að Alþingi álykti um að fram fari endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagns- og öryggismála í landinu. Er farið fram á mikið? Er til of mikils mælst að sett verði á laggirnar nefnd til að skoða þessi mál? Ég er sannfærður um að skýrslan sem hæstv. ráðherra vitnaði í hér í ræðu sinni segir okkur ekki söguna eins og hún í rauninni er. Það veit ég vegna þess að ég hef rætt við a.m.k. á annan tug rafvirkjameistara sem þurfa að annast þessi mál.

Ég minni á þau svör sem ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson fengum í könnun sem dregið er í efa að hafi verið lögleg. Sú könnun var ekkert annað en útsent bréf frá okkur þingmönnum til 600 aðila sem sinna raflögnum. Við fengum svörin og þau ýkja ekki ástandið. Ég ekki hitt neina nema hönnuðina að þessu kerfi --- ég hef líka rætt við þá --- sem telja að betur sé komið en áður var.

Hér var minnst á rafmagnseftirlitsgjald. Það væri gott að fá að vita það hjá hæstv. ráðherra hvenær rafmagnseftirlitsgjaldið var fellt niður. Mér segir svo hugur um að það gjald sé enn inni í kostnaði neytenda. Ég held að rafmagnseftirlitsgjald hafi aldrei verið fellt niður.

[14:45]

Ég nefndi úrtaksskoðanir sem fara þannig fram: Ákveðnir aðilar ákveða að taka eitthvert úrtak til skoðunar. Ég tek dæmi um hvernig skoðunin fór fram. Farið var í eftirlit í blokk í Kópavogi sem byggð var á árunum 1960--1970. Ein íbúð var skoðuð og gerðar voru 13 athugasemdir. Kostnaðurinn við lagfæringar átti að vera einhvers staðar í kringum 60--70 þús. kr. Ekki var farið í nokkra aðra íbúð en þessa umræddu og engin ábending var gerð til annarra íbúa í blokkinni um að einhverju væri ábótavant, sem er líklegt að hafi verið á sama máta í öllum íbúðunum í blokkinni, þær eru yfir 40. Svona er nú framkvæmdin. Hæstv. ráðherra hlýtur að vera sammála um að ástæða sé til að taka þetta mál upp og skoða það út frá þeim staðreyndum sem ég hef svo verið að nefna og liggja fyrir.