Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:51:46 (1358)

2000-11-03 14:51:46# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir heldur leitt að þurfa að stafa ofan í hv. þm. Kristján Pálsson hvað þessi till. til þál. fjallar um. Hún fjallar um að fara ofan í þau mál sem við erum með staðreyndir fyrir. Við fengum yfir 30% svörum frá þeim verktökum öllum sem okkur voru kunnir sem vinna í rafmagni sem er mjög hátt hlutfall. Og 3/4 þeirra sem svöruðu, eða 76,5% aðila, telja að ástandið sé óviðunandi. Þetta er svo hátt hlutfall og gefur svo mikla ástæðu til að fara betur ofan í þessi mál og þess vegna er till. til þál. sett fram og hún ákaflega kurteisleg.

Til að upplýsta hv. þm. Kristján Pálsson þá hef ég upplýsingar frá þeim aðila sem hann var einmitt að vitna til og við þekkjum báðir mætavel, að hann er óánægður með það ástand rafmagnsmála sem nú er í dag, þ.e. könnun á eða eftirlit með rafmagni. Þarna er þá sitthvað sem hvor hefur að fullyrðingu.

Í morgun ræddi ég kennara sem er með rafmagnskennslu í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Kennarar þar staðfesta að það ástand sem ríkir núna í öryggiseftirlitsmálum er óviðunandi. Ég segi enn og aftur: Ég hef engan hitt nema þá menn sem unnu að því fyrirkomulagi sem eru ásáttir með ástandið eins og það er. Enginn annar, enginn annar.