Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:54:02 (1359)

2000-11-03 14:54:02# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga einstaka rafverktaka inn í þetta dæmi og þetta sérstaka mál eða að fara að munnhöggvast eitthvað um það. Það kemur bara í ljós og ég vænti þess að hv. þm. fái upplýsingar um það fyrr en síðar.

Allir þeir verktakar sem eru virkir á markaðnum í dag gangast undir ákveðið öryggiskerfi sem er til að tryggja að allir þættir rafkerfa í húsum séu eftir ströngustu kröfum. Þar að auki eru námskeið í gangi fyrir sömu aðila þannig að sömu upplýsingar séu hjá öllum rafverktökum á landinu og gætt sé nýjustu upplýsinga og tækni á þessu sviði. Rafverktakar eru skyldaðir til að vera með bókhaldið sitt í lagi, vita hvernig þeir hafa unnið verkið og geta sýnt það í úrtaki hvenær sem er og þegar eftirlitsmönnum þóknast. Með þessum hætti hafa rafverktakar vegna eftirlitsins verið að missa löggildingu, vegna þess að þeir hafa ekki staðið sig. Og að telja að eitthvert miðstýrt eftirlitskerfi eins og var hér áður fyrr við lýði og sömu mennirnir og taka út hjá kunningjum sínum og halda að það sé eitthvert öryggi, það er falskt öryggi.

Sú könnun sem hv. þm. setja fram er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Allir þeir sem fjalla um kannanir, skilja í rauninni ekki hvernig er hægt að leggja slíkt fram án þess að leggja þá fram um leið forsendurnar og hvað það er sem menn voru í rauninni spurðir um. Ég sé ekkert um það hér og ég geri ráð fyrir því að það skýrist í nefndinni þegar skoðað verður hvað liggur að baki þessu öllu.