Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:16:04 (1368)

2000-11-03 15:16:04# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. er farinn að taka undir skoðanir mínar og skoðanir okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar á rafmagnseftirlitinu. Það er ástæða til að skoða sérstaklega þennan þátt. En ég tel að það sé ástæða til þess að skoða hvað þessir 200 aðilar af 600 eru óánægðir með. Við erum með svör í þáltill. við þeim spurningum. Við vitum ekkert hvaðan þessir menn koma sem svöruðu. Við vitum ekki hvort þeir eru frá Akureyri, Reykjavík eða hvaðan þeir eru því að við greindum ekki niður hvaðan þessir aðilar komu sem svöruðu. Þetta voru svör alls staðar af landinu og þar til viðbótar fékk ég fjölmargar upphringingar manna sem sögu: ,,Ég ætla ekkert að fara að svara þessu. Þetta er bara ómögulegt eins og þetta er.`` Ég sagði við menn sem þar áttu í hlut: ,,Svarið þið. Þið þurfið ekkert að greina frá hverjir þið eruð. Það veit enginn hvaðan svarið kemur. Það verður farið með þetta nákvæmlega á þann máta að það upplýsist aldrei.`` Og þess vegna segi ég bara: Við erum að nálgast, ég og hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir, í þessum málum sem segir að menn eru að viðurkenna það sem að er og það eru sérstaklega gamalveiturnar og ég brýni hæstv. iðnrh. til að skoðaðar verði gamalveitur í landinu og ástand þeirra.