Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:19:09 (1370)

2000-11-03 15:19:09# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þegar ég var í andsvari áðan taldi ég mig ekki geta rætt um þessa könnun á þann hátt að ég vissi nákvæmlega hvað í henni stæði. En ég fékk frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni blað í hendurnar sem segir mér hvernig spurt var og ég vil þakka fyrir það.

Ég sé aftur á móti í þessari þáltill. að þar er, með leyfi forseta, verið að vitna í þessa könnun og þar segir að 82,5% þeirra sem svara telji að eftirlitskerfi beri að breyta. Þar af vilja 38% hverfa til fyrra fyrirkomulags, þ.e. 38% af 82,5%. Ég reikna með því að þeir sem fengu þessi bréf í hendurnar hafi verið valdir vegna þess að þeir eru í þessum geira. Þeir eru að sinna raforkumálum hér og þar um kerfið, hafa vit á því og eiga að geta svarað. Samt sem áður velur ekki nema einn þriðji að sinna þessu. Aðrir telja sig ekki hafa ástæðu til þess að svara þessu. Af þeim 200 sem senda svör eru 82% sem telja að það eigi að breyta einhverju. 38% vilja fara til fyrra horfs. Það eru 10% af þeim sem fengu bréf þannig að ég held að óhætt sé að líta svo á að einungis 10% af þeim sem fengu tækifæri til þess að hafa skoðun á þessu máli vilja fara til fyrra horfs og setja á stofn Rafmagnseftirlit ríkisins eins og það var hér áður fyrr. Ef maður lítur á þessar tölur svona þá er algjör minni hluti sem hefur nokkurn áhuga á því að fara út í gamla fyrirkomulagið sem allir voru í sjálfu sér sammála um að væri bæði dýrt, eins og kom fram réttilega hjá hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur, og einnig þar fyrir utan er þetta kerfi eitt af því sem hefur sýnt sig að virka ekki því að miðstýrð eftirlitskerfi á vegum ríkisins hafa aldrei virkað. Það þekkja allir sem hafa kynnst þessu eða reynt að kynna sér þetta. Það er dálítið sérkennilegt þegar verið er að draga fram alls konar dæmi um að gömul kerfi í húsum séu óyfirfarin og hafi ekki fengið eftirlit þrátt fyrir að Rafmagnseftirlit ríkisins hafi verið til þó í langan tíma, að gleyma því. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að menn vildu fá gamla sovét. Hvað var gamla sovét? Gamla sovét var það að ríki öreiganna ætlaði að sjá um allt. Það ætlaði að sjá um allt fyrir einstaklingana þannig að þeir áttu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af neinu. Þeir áttu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af öryggi sínu, launum, atvinnu eða neinu þannig að þeir áttu heldur ekki að hafa áhyggjur af rafmagnseftirliti. En hvernig fór það? Það vita allir hvernig fór.

Ég held að óhætt sé að taka undir þau orð sem hafa komið hér fram að að sjálfsögðu er það í höndum fólksins sjálfs að hafa eftirlit með húsum sínum. Ef það þarf að skipta um peru, ef það þarf að skipta um reykskynjara, setja rafhlöðu í reykskynjara eða halda uppi öðru eftirliti í húsinu, þá er það náttúrlega húseigandinn sjálfur sem ber ábyrgð á því. Það er ekki hægt að kalla til einhverja opinbera starfsmenn til að segja fólki til um allt sem lýtur að rekstri þess eigin heimilis. Það er alveg ljóst og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson skilji það líka.

Ég held því að fáir taki undir það með hv. þm. að það eigi að hverfa til fyrra horfs sem var í þessum stíl Sovétlýðveldisins, að ríkið ætti að sjá fyrir öllu. Fólkið ber ábyrgð á sínu lífi og í þessu tilfelli hefur þetta virkað vel. Það er komið vel fram í þessum umræðum að eftirlitið hefur virkað vel og mjög nákvæmt eftirlit er með þeim öryggisþáttum sem skipta mestu máli, þ.e. að raforkuvirki í hverju húsi sé gert samkvæmt ströngustu kröfum. Rafverktakar eru teknir á námskeið og þeir eru settir undir eftirlit og þannig hefur þetta eftir því sem þeir segja sjálfir virkað mjög vel og er í augum þeirra manna sem eru að vinna við þetta sem rafverktakar miklu betra. Þetta er meira hvetjandi kerfi en áður var. Þeir eru sjálfir ábyrgir fyrir því að þetta sé í góðu lagi. Það eru ekki einhverjir aðrir úti í bæ sem eiga að passa upp á það. Þeir verða að gera það sjálfir. Í því felst mismunurinn.

Ég get aftur á móti tekið undir það með þeim sem hér hafa talað að auðvitað er alltaf hægt að gera betur og auðvitað vilja menn hafa rafmagnseftirlit í sem allra bestu horfi og ég á ekki von á öðru en að allir geti tekið undir það. Spurningin er hvernig það er gert. Mér fannst á hæstv. iðnrh. að hún hefði mikinn vilja til þess að þessi mál væru í öruggum höndum og að þarna væri fylgst vel með þannig að öryggi á þessu sviði væri alltaf eins og best verður á kosið.