Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:27:41 (1372)

2000-11-03 15:27:41# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég notaði þessar tölur á nákvæmlega eins og hv. þm. er að gera í þessari þáltill. þ.e. að leggja út frá svörum sem hann bað um sjálfur og niðurstaðan er sú að 10% af þeim sem fengu bréf vilja fara yfir í gamla fyrirkomulagið aftur. Það kemur ekki fram hvað allir hinir vilja nákvæmlega.

Eftirlitskerfi eru með allt öðru móti núna en var fyrir nokkrum árum síðan. Við getum tekið dæmi um bifreiðaeftirlit sem er núna boðið út, eftirlit með fiskverkunarstöðvum og ýmsu öðru. Þetta er allt boðið út í dag. Meira að segja eru bifreiðaskoðunarstöðvar að fylgjast með fiskvinnslustöðvum af því að þeir bjóða lægst í það og skila síðan skýrslum sínum til ákveðinna opinberra aðila þannig að það er dálítið mikill munur á því. Auðvitað getur hið opinbera verið með eitthvert yfirlit yfir þetta allt meðan sjálfstæðar skoðunarstofur sjá um eftirlitið sjálft og það er það sem verið er gera með rafmagnseftirlitinu. Að mati þeirra sem við þetta starfa, þ.e. virkra rafverktaka, þá hefur það verið mjög hvetjandi kerfi. Þeir þurfa að halda mjög nákvæmt bókhald. Þeir þurfa að standa sig. Þeir tapa réttindunum ef þeir standa sig ekki og þannig hefur kannski margt unnist hvað þetta varðar gagnvart rafverktökunum sjálfum. Auðvitað töpuðu einhverjir eftirlitsmenn vinnu en sem betur fer er ekki slæmt atvinnuástand í dag og óþarfi að setja upp sérstakan eftirlitsiðnað til að skapa störf.