Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:31:17 (1374)

2000-11-03 15:31:17# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom greinilega fram skoðun hv. þm. á hinu frjálsa framtaki, þ.e. að allt þurfi að vera í höndum ríkisins og ekki sé hægt að treysta framtaki einstaklinganna fyrir því að hafa eftirlit með málum eins og því að skoða bíla. Hv. þm. líður illa ef menn á bifreiðaverkstæðum úti í bæ fara yfir bílinn hans því að hann treystir því ekki að þeir geri athugasemdir svo að bíllinn sé í lagi heldur vilji þeir bara gera athugasemdir þannig að þeir hafi næga vinnu, það sé ekki tengt því hvað sé að bílnum.

Mér finnst þetta lýsandi fyrir umræðuna, þ.e. verið er að biðja um miðstýrt sovétkerfi eins og hv. þm. var svo óheppinn að benda á sjálfur en þrætir svo fyrir að hafa meint þetta. (ÖJ: Það er þinn málflutningur.) Þetta kristallast líka í því að sovétlýðveldið svokallaða sprakk vegna þess að enginn hvati var fyrir því að gera betur. Enginn hafði í rauninni hag af því að gera betur en næsti maður.

Eftirlitskerfið hefur sem betur fer þroskast í það að vera sæmilega skilvirkt. Eins og með mörg önnur kerfi verður það ekki fullkomið, þetta þarf að þróast. Eftir því sem ég hef talað bæði við rafverktaka og þá sem flytja inn rafmagnsvörur og efni hefur þetta smám saman verið að þróast í þá átt að menn geta verið öruggari um sinn hag í kerfinu en áður var og sífellt betur eftir því sem innra eftirlit þeirra sjálfra batnar.