Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:40:59 (1376)

2000-11-03 15:40:59# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af viðhorfi hæstv. ráðherra iðnaðarmála og ég hef áhyggjur af því hvað ráðherrann hefur mikið traust á þekkingu einstaklinga á rafmagni. (Gripið fram í.) Það sem er verið að ræða um, hv. þm., eru fyrst og fremst gamalveitur. Það sem ég var að ræða um og hæstv. ráðherra sagði að einstaklingurinn yrði að bera ábyrgð á sínum málum, sínum gömlu húsum. Einstaklingarnir verða að átta sig á því, gamla fólkið, sjötuga gamla konan verður að átta sig á rafmagnsöryggismálum, hvort gamla trétaflan með gömlu öryggjunum, gömlu vírunum, sem ekki má koma við, þá hrynur af einangrunin, sé í lagi.

Þetta er ekki svona. Meira að segja einstaklingar sem eru iðnaðarmenn í öðrum greinum gera sér ekki grein fyrir þeirri hættu sem stafar af rafmagni og þar með talið gömlu veitunum.

Svo þótti mér, herra forseti, ákaflega fróðlegt að komast að því að PricewaterhouseCoopers hafa verið settir í kerfisbundna skoðun á því hvort álit okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar varðandi rafmagnseftirlit og öryggismál skuli vera sett í sérstaka skoðun eða þá vinnubrögðin okkar. Við komum heilir að þessari vinnu og við sendum þetta heiðarlega út til rafverktaka og við fengum að mínu mati heiðarleg svör. Það getur vel verið að það hafi átt að sækja til tölvunefndar en þá er ég bara svo vitlaus í þeim málum, eins og kannski rafmagnsmálum, að ég áttaði mig ekki á því að það væri eitthvað sem hefði farið öðruvísi en lög gera ráð fyrir.