Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:46:52 (1380)

2000-11-03 15:46:52# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um rafmagnseftirlit á Íslandi. Það hefur komið fram að margir telja því vera mjög ábótavant. Við höfum leitt fram rök, ég og hv. þm. Gísli S. Einarsson og reyndar fleiri, fyrir því að rafmagnsöryggi í landinu hafi hrakað. Við gerðum könnun til að reyna að sýna fram á að viðhorf sem við höfðum orðið varir við ætti hljómgrunn í þessari stétt og vildum leiða það fram og gengumst fyrir könnun. Nú er hæstv. ráðherra, sem hefur átt mjög í vök að verjast í þessu máli, komin í mikinn sóknarham og það gerir hæstv. ráðherra á einni forsendu og aðeins einni, þ.e. með því að reyna að kasta rýrð á þá könnun sem við gengumst fyrir. Og nú er það upplýst að fyrirtæki úti í bæ hafi verið fengið til þess að fóðra hæstv. ráðherra í þeirri sókn gegn því að athugun fari fram á þessu máli, þverpólitísk könnun fari fram á þessu máli. Það er það sem við erum að óska eftir.

Mér hefði nú fundist ágætt ef þeir aðilar sem voru að kanna hvernig við stóðum að þessari athugun okkar hefðu sýnt okkur þá kurteisi að ræða við okkur, sem aldrei nokkurn tíma var gert. Og hvað er svona óskaplega hlutdrægt við það að senda út könnunarseðil samkvæmt félagaskrá rafverktaka sjálfra og biðja þá að merkja í reit þar sem spurt er hvort þeir telji núverandi ástand rafmagnsöryggismála viðunandi, já eða nei? Telja þeir að öryggi almennings og raforkuvirkja sé vel fyrir komið með úrtaksskoðunum, já eða nei? Hvernig telja þeir það fyrirkomulag sem tryggir best öryggi raforkuvirkja og almennings og besta þjónustu rafmagnseftirlits? Hvernig vilja þeir hafa það? Og þar er vísað í fjóra möguleika.

Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi okkur nánari skýringar á þeim málflutningi sem hún viðhafði hér áðan.