Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:51:56 (1383)

2000-11-03 15:51:56# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt af því sem fram kemur í greinargerð með tillögunni er að talað er um þá þriggja manna nefnd sem fyrrv. iðn.- og viðskrh. skipaði og var þeirri nefnd falið það verkefni sumarið 1999 að kanna gagnrýni sem hefði komið fram á þetta fyrirkomulag, og eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Nefndin klofnaði í afstöðu sinni m.a. vegna þess að ekki var samstaða um að leita upplýsinga sem allir nefndarmenn teldu fullnægjandi.``

Minni hlutinn vildi halda áfram að leita upplýsinga og halda áfram að kalla aðila til nefndarinnar til viðræðu. Ég er með lista yfir 39 aðila sem voru kallaðir fyrir nefndina þannig að eitthvað var nú unnið í þessari nefnd og ég vil reyndar halda því fram að vel hafi verið unnið í nefndinni.

Ég vil í lok þessarar umræðu, ef henni er að ljúka, þakka fyrir hana. Ég held að hún hafi miklu frekar orðið til góðs en til ills. Engu að síður hef ég ekki skipt um skoðun og er ekki fylgjandi því að nefnd verði skipuð.