Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:53:27 (1384)

2000-11-03 15:53:27# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að þessari umræðu er ekki lokið og henni lýkur ekki hér í dag. Við verðum ekkert afgreidd út af borðinu með þessum hætti. Mér finnst reyndar að þessi mál þurfi einnig að koma til kasta þingsins í öðru samhengi. Við þurfum að íhuga vel hvernig staðið verður að eftirliti og rannsóknarvinnu á vegum Alþingis þegar alþingismenn telja einhverju ábótavant hjá framkvæmdarvaldinu, setja fram gagnrýni og vilja láta kanna og rannsaka málin. Mér finnst það vera mjög mikilvægt verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Reynsla mín af þessu máli er vægast sagt alveg hörmuleg. Þegar þetta mál var afgreitt á sínum tíma fór 3. umr. fram um miðja nótt. Ég held hún hafi hafist klukkan hálffjögur að morgni og hafi lokið um sjöleytið um morguninn. Það var 3. umr. málsins. Þetta mál var sett á dagskrá þegar þingsalir voru nánast tómir og enginn á að hlýða. Vitnisburðinn er aðeins hægt að finna í þinggögnum.

Síðan var málið aftur og ítrekað tekið upp á Alþingi. Við settum fram fyrirspurnir. Við efndum til utandagskrárumræðu þar sem ráðherra hafði jafnan síðasta orðið og yfirleitt var sama ræðan flutt aftur og aftur, kerfið væri svo óskaplega gott, það gengi svo vel upp, það hlyti að vera gott o.s.frv. Þetta voru ræðurnar sem voru fluttar. Og þegar við komum með staðhæfingar um kostnað, um óheyrilegan kostnað af eftirlitinu, sem felst í því að senda skoðunarmenn landshornanna á milli og framkvæma skoðanir sem eru með öllu ófullnægjandi --- ég get nefnt fjölmörg dæmi um slíkt þar sem farið er að skoða t.d. sjúkrahús og hætt á miðjum stofugangi þegar fjárveitingin er úti, því að þannig gengur þetta fyrir sig. Þegar fjárveitingin er úti þá er skoðun hætt.

Þótt Löggildingarstofan eða þeir aðilar sem eru á hennar snærum geri athugasemdir þá er ekkert tryggt að það sé skoðað aftur. Ekkert tryggir það. Þegar fjárveitingin er úti, þegar þessar einkareknu skoðunarstofur eru búnar með kvótann, þá er skoðun hætt þótt það stríði gegn skynsemi allra sem koma að máli.

Þetta tókum við upp aftur og aftur og vildum ræða. Undir lokin fengum við því framgengt --- ég hafði mig nokkuð í frammi í því máli eins og hæstv. ráðherra hefur bent á --- að skipuð var þriggja manna nefnd og lengi var tekist á um hverjir ættu að sitja í þeirri nefnd. Ég hefði helst viljað að það hefðu verið með öllu óhlutdrægir aðilar, algerlega óháðir, óhlutdrægir aðilar. En á endanum, eftir margítrekaðar tilraunir hæstv. fyrrv. iðnrh. að skipa í nefndina aðila sem ég taldi vera beinlínis aðila að málinu, varð niðurstaðan þriggja manna nefnd þar sem ég nefndi einn mann til sögunnar. Það er alveg rétt. Við urðum ásáttir um formanninn sem núna er í stjórn Löggildingarstofu, skilst mér. En þessi fulltrúi sem ég hafði tilnefnt myndaði minni hluta í nefndinni þegar hann fékk því ekki framgengt að sú rannsóknarvinna sem samið hafði verið um að yrði unnin, yrði unnin.

Hæstv. ráðherra andaði öllum stundum niður hálsmálið á þessari nefnd og birti síðan skýrslu sem ber heitið Árangur af breyttu skipulagi, á sama tíma og þriðjungurinn af nefndinni segir, með leyfi forseta:

,,Því miður getur undirritaður ekki tekið undir fullyrðingu ... að ástand rafmagnsöryggismála sé gott og tryggi vel öryggi raforkunotenda. Til að unnt sé að setja fram slíka fullyrðingu hefði þurft miklu ítarlegri rannsókn.``

En samt er þetta birt, Árangur af breyttu skipulagi. Þetta er ósvífni og þetta er óskammfeilni. Það er alveg jafnmikil óskammfeilni að hæstv. ráðherra reynir nú að drepa þessu máli á dreif með því að gera viðleitni okkar til að fá upplýsingar um hver afstaða rafverktaka á Íslandi er til þessara mála, tortryggilega.

Stóri bróðir á ekki að sjá um allt eftirlit. Ég er alveg sammála því. Ég er líka sammála því sjónarmiði að það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir innra eftirlit, vilja þeirra sem vinna verkin til að gera vel og fara að settum reglum. Ég ber mikið traust til íslenskra rafverktaka og rafvirkja. Ég geri það. Og ég efast ekkert um þeirra faglegu vinnubrögð þegar á heildina er litið. Ég geri það ekki.

Ég er að segja það hins vegar að til eru undantekningar. En kannski miklu fremur er ég að segja hitt, að vegna þess að eftirlitið er ekki fyrir hendi þá hefur fúskið aukist. Þeir sem standa utan þessara stétta og hafa ekki nægileg þekkingu sjálfir eru núna komnir að borði. Þetta segja okkur rafvirkjar og rafverktakar og benda á sumarbústaðahverfin. Við fáum þessar ábendingar frá Bændasamtökunum. Við fáum þessar ábendingar frá rafvirkjum og rafverktökum á suðvesturhorninu og alls staðar á landinu.

[16:00]

En hæstv. ráðherra flytur alltaf sömu ræðuna og segir að þetta sé allt í himnalagi, ástandið sé svo gott og kerfið sé svo fínt og allir séu farnir að hafa eftirlit með sjálfum sér. Ég efast ekkert um að margir geri það og flestir vinni sín störf af mikilli trúmennsku. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að einmitt þessi mál, mál á borð við vinnueftirlit, rafmagnseftirlit, hollustuvernd, geislavarnir, almennt eftirlitshlutverk í landinu eigi að vera á vegum opinberra aðila, eftirlit með markaði sem við viljum að sjálfsögðu að blómstri og sinni hlutverki sínu á markaði. Spurningin snýst einvörðungu um það eftirlit sem við viljum hafa með þessum markaði. Ef það kemur í ljós að örygginu hefur hrakað, það hefur gerst, í stað þess að allar nýjar íbúðir, allt nýtt atvinnuhúsnæði sé skoðað og haft með því eftirlit er núna framkvæmd úrtaksskoðun, aðeins úrtak innan við 20%. Síðan þegar menn reyna að færa sönnur á að kostnaðurinn hafi farið niður kann það vel að vera en örygginu hefur hrakað vegna þess að skoðaðar eru miklu færri íbúðir og færri vinnustaðir . Þetta er staðreyndin. Kostnaðurinn við hverja tiltekna skoðun, hverja einstaka skoðun, hefur hins vegar rokið upp úr öllu. Við höfum smíðað kerfi sem lýtur ekki lögmálum skynseminnar, það vita þeir sem hafa komið að þessum málum og hafa séð eftirlitsmennina hætta á miðjum spítalagöngunum vegna þess að sjóðirnir voru upp urnir.

Þess vegna erum við að leggja til með þessari þáltill., sem ég átti sannast sagna von á að menn mundu taka betur undir í Stjórnarráðinu og af hálfu stjórnarliða, að eina ferðina enn yrði farið í saumana á þessum málum með þverpólitískri nefnd, fulltrúum skipuðum frá öllum þingflokkum til þess að kanna þetta. Ef hæstv. ráðherra og þeir sem eru á sama máli og hann í þingsal telja að vinna okkar sé öll út í hött, þetta séu vafasöm vinnubrögð o.s.frv. og þetta sýni ekki hver afstaða rafvirkja eða rafverktaka er til þessara mála, hvað óttast menn? Óttast menn að setjast niður og ræða málin, skoða þau? Ef menn telja þessa könnun hafa verið vafasama, eigum við þá bara ekki að framkvæma nýja könnun? Eigum við ekki bara að athuga þessi mál nánar? Hvað er það sem menn óttast? Að þetta þoli ekki dagsljósið? Að þetta þoli ekki umræðu? (Gripið fram í.) Sem betur fer heyrist mér umræðuviljinn vera að aukast, eitthvað að losna um málbeinið, það er vel. Ég vona að við heyrum meira í hæstv. ráðherra um þetta mál líka á eftir, að hann nýti einhver tækifæri til að koma hér upp því að einu get ég alveg lofað hæstv. ráðherra, að við látum ekki plástra fyrir umræðuna með þessum hætti. Það gerum við ekki og eins og ég segi eigum við líka eftir að taka þessi mál upp á annan hátt og kanna og ræða vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þegar um það er að ræða að Alþingi sinni lögboðnu eftirlitshlutverki sínu.