Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:09:33 (1389)

2000-11-03 16:09:33# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Kannski er ekki tilefni til þess að lengja umræðuna mikið en mér segir svo hugur að sú tillaga sem er á borðum okkar og er hér til umræðu, till. til þál. um endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála, komi aldrei aftur í þingsal. Ég er hrædd um að tillagan verði svæfð í hv. iðnn. og þess vegna finn ég mig knúna til að nýta tækifærið sem verður kannski það síðasta til að tjá sig í vetur um þetta mál. Það sem mig langar til að orða fyrst er auðvitað það að mér finnst gæta ótrúlega mikillar óbilgirni og í raun og veru sleggjudóma í máli hæstv. iðnrh. sem fullyrðir hvað eftir annað í ræðu sinni áðan að hún vilji bætta þjónustu við neytendur og hún vilji gera hana skilvirkari og fullyrðir svo að almenn ánægja ríki með kerfið þegar rökstuddar vísbendingar eru um að kerfið fúnkeri illa. Þær rökstuddu vísbendingar koma ekki einasta fram í þeirri könnun sem hér hefur verið mikið rædd í tengslum við þessa þáltill., könnun sem tveir hv. þingmenn hafa látið gera, heldur koma rökstuddar vísbendingar einnig fram um það í skýrslu iðnrn., sem einnig hefur verið nefnd í þessari umræðu, og skýrslan sú er afar veigamikið plagg í þessu máli. Meðan þær ábendingar sem koma fram hjá minni hluta nefndarinnar eru jafnrökstuddar og þær eru þykir mér það harla skrýtið að hæstv. ráðherra skuli ítrekað geta talað um að almenn ánægja ríki með kerfið og í sama orðinu hafnar hún því sem hún kallar víðfeðmt og óábyrgt opinbert eftirlit. Hverju lýsir sú afstaða, hæstv. forseti? Þessi afstaða lýsir fordómum í garð opinberra eftirlitsstofnana almennt. Við eigum ansi margt undir opinberum eftirlitsstofnunum í landinu og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur nefnt þar nokkrar til.

Við vitum það, herra forseti, að hér er um flókið og mjög sérhæft mál að ræða. Vegna þess að hér voru nefndar til sögunnar áðan læknastofur og sjúkrahús þá vil ég bæta tannlæknastofum við því að það er alveg vitað að stofur af því tagi þurfa á að halda eftirliti frá ólíkum aðilum. Þær þurfa heilbrigðiseftirlit, þær þurfa öryggiseftirlit, þær þurfa vinnueftirlit og þær þurfa rafmagnseftirlit. Eftirlitsmenn frá öllum þessum fjórum batteríum koma til þess að taka út og gera skoðanir á svona stofum.

Við viljum öll að ýtrustu öryggiskröfur séu gerðar hjá tannlæknum, hjá læknum og almennum sjúkrastofnunum. Herra forseti. Af því að ég hef lesið lítillega í skýrslunni um rafmagnsöryggismál langar mig til að vitna til VII. kafla hennar sem segir okkur örlítið meira um grunninn fyrir kerfisbreytingunni. Hvers vegna var kerfisbreytingunni komið á? Jú, herra forseti. Kerfisbreytingunni var komið á vegna þess að við gerðum samning um hið Evrópska efnahagssvæði og hluti af honum fjallar um gagnkvæma viðurkenningu á vottun og prófun í Evrópu. Sú viðurkenning felur í sér Tampere-samkomulagið sem gert var 1988 en það samkomulag er, herra forseti, um afnám tæknilegra viðskiptahindrana og markmið þess er að greiða fyrir frjálsum viðskiptum innan EES.

Herra forseti. Kann ekki að vera að við séum þarna komin að kjarna málsins? Hluti af þeirri óánægju sem ríkir með þetta kerfi er tengdur því að hér er um viðskiptahagsmuni að ræða. Hvers vegna hleypir hæstv. ríkisstjórn alþingismönnum ekki að umræðunni? Hvers vegna leyfir hún ekki brautargengi fyrir þessari hugmynd um að óháð nefnd sé skipuð til að skoða þessi mál ofan í kjölinn? Ég tel fullt tilefni til, herra forseti, og mér þykir allt hér hafa verið stutt rökum, allar þær vísbendingar sem hafa verið fram reiddar hafa verið studdar rökum.

Herra forseti. Mig langar til þess vitna frekar í þessa skýrslu um rafmagnsöryggismál þar sem fjallað er um í kafla VII skuldbindingar Íslendinga gagnvart því að viðurkenna vörur og búnað sem framleiddur er innan EES því að hluti af umræðunni fjallar um raffangabúnað og viðurkenningu á slíkum búnaði. Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, að viðurkenning á slíkum búnaði þarf einungis að vera viðurkenning framleiðandans sem skuldbindur sig til þess að taka á sig ábyrgð af öryggi viðkomandi búnaðar. Viðkomandi búnaður fær þá svokallaða CE-merkingu og CE-merking er eitthvað sem Alþingi ætti svo sannarlega að vita meira um og fá tækifæri til að fara betur ofan í eftirlit á CE-merkingum. Ég vil fá að vitna í þessa skýrslu í lok máls míns þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Framleiðandinn getur fengið staðfest hvort varan (raffangið) uppfyllir kröfur og staðla, hvort sem er með eigin prófunum búnaðarins eða með raffangaprófunum í faggiltum prófunarstofum. Hugsunin er sú, að það sé í raun á ábyrgð framleiðandans að markaðssetja örugga vöru og ábyrgð hans fylgi frelsi til að markaðssetja vöruna.

Þannig er nú samkvæmt EES-samningnum leyfður frjáls innflutningur og sala raffanga til Íslands þar sem nægilegt er að innflytjandinn staðfesti í umboði framleiðanda að raffangið standist viðkomandi öryggiskröfur og staðla. Slík staðfesting skal liggja fyrir og innflytjandinn þarf að geta sýnt hana og staðfest ef eftir því er leitað. Íslensk raffangaprófun, sem vörn hins íslenska markaðar gegn gölluðum og hættulegum innfluttum rafföngum samrýmist því ekki lengur skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi.``

Herra forseti. Orð af þessu tagi í opinberri skýrslu gefa fullt tilefni til þess að fara frekar ofan í málið og skipa óvilhalla nefnd kunnáttumanna til að fara ofan í málin og gefa alþingismönnum og þjóðinni þar með staðfestingu á því að hér sé fyllsta öryggis gætt. Okkur nægir ekki, herra forseti, að fá fullyrðingar frá hæstv. iðn.- og viðskrh. þess efnis að dregið hafi úr kostnaði við rafmagnseftirlit og aukið hafi verið á öryggi neytenda.

Herra forseti. Það er ekki nóg. Við þurfum aðgerðir og meðan við fáum þær ekki er ekki óeðlilegt að spurt sé hvað stýri för og hverra hagsmuna hæstv. ráðherra sé að gæta.