Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:41:27 (1396)

2000-11-03 16:41:27# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég boðaði það í umræðu um annað frv. í gær sem hér var til umræðu að ég mundi leggja fram þriðja frv. eftir helgina þar sem lagt er til að 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaganna verði felld brott, en í þeirri málsgrein er kveðið á um bann við upptöku á samtölum án vitundar. Ég hef miklar efasemdir almennt um að setja þetta í lög og tel að þetta muni torvelda fréttamönnum að sinna nauðsynlegu eftirlitshlutverki sínu. Ég minni aftur á dæmisöguna sem ég nefndi í gær um Nígeríumanninn. Ég nefni Nígeríumanninn vegna þess að þeir hafa ýmsir (Gripið fram í: Þeir eru alltaf hringjandi.) reynt að ástunda vafasöm viðskipti hér á landi. Það þekkja margir af eigin reynslu. Þótt það gildi að sjálfsögðu um örfáa einstaklinga er það staðreynd.

Ég ætla að rifja upp dæmisöguna af Nígeríumanninum sem er hér að reyna að pretta menn. Fréttamaðurinn kemst á snoðir um athæfi hans og hefur samband við hann og tekur samtalið upp á band með það fyrir augum að fletta ofan af hans ólöglega athæfi. Þetta mætti hann ekki gera samkvæmt núgildandi lögum einfaldlega vegna þess að það er bannað með lögum, 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaganna, að taka upp samtal án þess að tilkynna viðmælandanum það áður. Ég sé ekki að þessi lagabreyting mundi breyta neinu í þá áttina vegna þess að grunnreglan er sú að viðkomandi þurfi að hafa vitneskju um þetta. Einnig þarna væri því fréttamaðurinn að fremja lögbrot. Hann gæti ekki sinnt þessu nauðsynlega eftirlitshlutverk fyrir hönd þjóðfélagsins.

Í öðru lagi finnst mér 1. efnismálsgrein 1. gr. frv. sem hér er til umfjöllunar vera mjög óljós um margt og mér fannst úrskýringar hæstv. ráðherra ekki lýsa málið nægjanlega. Mín skoðun er sú að gagnstætt því sem ég var að halda fram í umræðum um annað mál fyrr í dag þar sem ég vildi lög og eftirlit þá tel ég að á þessu sviði eigi fyrst og fremst hið innra eftirlit að gilda og þar er ég að vísa til siðareglna fréttamanna. Þær eru miklu meira virði en einhver lagatexti af þessu tagi. Það er t.d. ekkert sem bannar fjölmiðli að útvarpa samtali beint. Það væri þess vegna hægt að hringja í hæstv. samgrh. og eiga við hann samtal og útvarpa því til alþjóðar án þess að hann vissi að hann væri á öldum ljósvakans. Það er hægt að gera. En það mætti hins vegar ekki lögum samkvæmt taka samtalið upp á segulband. (Samgrh.: Finnst þingmanninum þetta eðlilegt?) Nei, það finnst mér ekki eðlilegt og ég held að flestum fréttamönnum þætti þetta mjög óeðliegt. Það er á málum af þessum toga sem samtök fréttamanna, Blaðamannafélag Íslands, eru að taka öllum stundum. Það hefur sett upp siðanefnd sem tekur á slíkum málum og reynir að koma í veg fyrir athæfi af þessu tagi með því að innræta stéttinni, sjálfum sér, siðleg vinnubrögð. Mér finnst skipta mjög miklu máli að svo sé gert. Reyndar finnst mér skipta mestu máli í þeirri lagagrein sem hæstv. ráðherra er að kynna síðasta málsgreinin þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Úrvinnsla hljóðritana samkvæmt grein þessari skal vera í samræmi við lagaákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.``

Þetta finnst mér hið kjarnlæga í þessu máli, þ.e. hvernig farið er með upptökur, hvernig farið er með segulbandsupptökur af samtölum. Það skiptir máli og þarna held ég að komi til kasta siðareglna fréttamanna og annarra laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það kann vel að vera að ég muni huga að þessu ákvæði þegar ég kynni áður boðað frv. mitt sem ég mun leggja fyrir þingið í næstu viku.