Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:49:42 (1398)

2000-11-03 16:49:42# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Almennt er ég á því að við eigum að lúta niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og mannréttindadómstóla yfirleitt og væri vel að við gerðum það í flestum málum. Hins vegar eigum við ekki að lúta niðurstöðum hans sem heilögum sannleika í öllum málum og líta á hann sem heilaga ritningu.

Ég hef t.d. oft gagnrýnt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í afstöðu hans gagnvart verkalýðshreyfingunni og verkalýðsfélögum sem hann vill stundum að mér sýnist ganga af dauðri og hef haft miklar efasemdir um dóma hans á því sviði. Dómar og lög eru stöðugt að taka þróun og breytingum og að sjálfsögðu eigum við að leyfa okkur að hafa skoðanir á löggjafarsamkundum um þróun mála og inn í hvaða farveg við viljum að hlutirnir stefni. Mér finnst eðlilegt að reyna að styrkja fréttamenn í starfi sínu. Þeir eru mjög mikilvægur þáttur. Það er reyndar einn af hornsteinum lýðræðisþjóðfélags að hér séu öflugir og kröftugir fjölmiðlar sem sé gert að starfa á opinn hátt og eðlilegan. Ég hef fært fyrir því rök að ég telji að 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaganna torveldi þeim þetta eftirlitshlutverk og mun leggja til að hún verði felld á brott.