Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:51:28 (1399)

2000-11-03 16:51:28# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé þannig með öll mannanna verk að ekkert þeirra er fullkomið. En hitt held ég að hafi sýnt sig í gegnum tíðina að það er miklu betra að við fylgjum a.m.k. niðurstöðum dóma og virðum þá. Ég vil í ljósi þess sem hv. þm. sagði áðan benda honum á að komi til þess að hann leggi fram það frv. sem hann hefur nú boðað í ljósi þess að mannréttindasáttmálinn var lögfestur 1994, í ljósi breytinga sem áttu sér stað á stjórnarskránni og í ljósi þess frv. sem við ræddum í gær, þá verður hv. þm. um leið að leggja til, ef ég man rétt, að 8. gr. mannréttindasáttmálans falli brott og þá verður hann líka að leggja til breytingar á 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta eitt dugar ekki í ljósi þeirra laga sem nú eru í gildi og í ljósi þeirrar stjórnarskrár sem er nú í gildi. Ætli hann að leggja til þessa breytingu er alveg ljóst að með í pakkanum og með í för verða þá að vera þessar breytingar ef frv. hans á að ná fram að ganga. En ég vil þá a.m.k. segja það sem skoðun mína að ég er algerlega ósammála hv. þm.