Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:53:34 (1401)

2000-11-03 16:53:34# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um það mál sem hér er til umræðu. Ég hef dálitlar efasemdir um 1. gr. í þessu frv. og ég sé ástæðu til þess að efast um að nokkur möguleiki verði til þess að rökstyðja það óljósa orðalag sem er í henni því að ,,... þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina`` --- það er væntanlega að mati þess sem tekur upp. Vel má vera að í sumum tilfellum geti hann út af fyrir sig verið viss um að viðmælandanum sé kunnugt um þetta en viðmælandinn gæti auðvitað þrætt fyrir að það hafi verið skilningur hans að þetta samtal væri tekið upp.

Þá spyr ég: Yrði þá ekki sú niðurstaða fyrir Mannréttindadómstólnum miðuð við að þarna væri um að ræða hlerun samkvæmt skilningi dómstólsins á því að ekki megi taka upp samtal öðruvísi en það sé alveg ljóst að um það sé vitað af viðmælanda viðkomandi aðila?

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að við munum eiga eftir að eiga í miklum erfiðleikum með að skilgreina svona hluti í framtíðinni. Tæknin er einfaldlega alltaf á fullri ferð. Menn hljóta að spyrja sig hvort það sé í raun og veru þannig að ýmis tæki og tól sem verið er að selja á almennum markaði séu kannski ólögleg og brot á friðhelgi einkalífsins.

Hvað með hátalarana í símunum? Er það brot á friðhelgi einkalífsins að kveikt sé á slíkum hátalara og þriðji aðili hlusti á símtal eða á að tilkynna það sérstaklega og á að setja það í lög? Hefði það einhverja þýðingu? Mundi einhver taka mark á slíku? Ég held ekki. Ég held að menn verði að horfast í augu við að þarna verði mjög erfitt að skilgreina hlutina og það verður að byggja fyrst og fremst á því með hvaða hætti menn fara með þessar upplýsingar og upptökur. Ég tel að það þurfi að vera alveg á hreinu að fréttamenn séu að taka upp. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það geti bara vel verið að það eigi að gera það með einum ákveðnum hætti og það er að gefnar séu út tilkynningar hjá viðkomandi fréttastofum um að þær notist ævinlega við slíkar upptökur nema annað sé tekið fram og þannig sé öllum gert ljóst að þetta sé viðtekin venja. Hins vegar held ég að það hljóti að þurfa að spyrja sig að því hvort ekki þurfi að vera eftirlit með því hvernig slíkar upplýsingar eru geymdar og farið með þær ef menn ætla sér að hafa samræmi í því sem verið er að fjalla um um meðferð persónuupplýsinga. Ég tel reyndar að menn séu nú þegar í ógöngum og þær ógöngur munu halda áfram og versna í framtíðinni hvað varðar þennan málaflokk.

Mér finnst að fréttamenn þurfi að bera ábyrgð á texta sínum og ef þeir eru að hafa eftir einhverjum aðilum ætti það að vera venja að þess væri getið hvaða ummæli þeir hyggist hafa eftir viðkomandi ef verið er að vitna beint í samtöl við fólk. En hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um að siðareglur fréttamanna skiptu mestu máli hvað það varðaði hvernig væri farið með svona hluti og ég sannarlega sammála því. En það er ekki mikið eftirlit með þeim siðareglum. Ekki þarf að lesa blöðin marga daga í röð og fylgjast með því hvernig farið er með sumar upplýsingar og hvernig ýmsar upplýsingar verða til sem koma fram í blöðum til að sjá að ekki er endilega víst að menn virði siðareglurnar allt of vel. Ég býst við að flestir alþingismenn hafi t.d. hrokkið við öðru hverju eftir samtöl og viðtöl við fréttamenn þegar búið er að setja einhvers konar fyrirsagnir á viðtölin sem snúa gersamlega við meiningunni í því sem viðkomandi sagði við blaðamanninn. Þetta gerist stundum og mér finnst að siðareglurnar ættu að segja mönnum að slíkt ætti ekki að gerast en það gerist. Ég tel þess vegna að þarna eigi að vera reglur sem eru klárar. Menn eigi að vita um þær en ég legg það eindregið til að menn finni eitthvað annað orðalag um þessa hluti en það sem tryggir að örugglega verði um það ágreiningur í framtíðinni hvort viðkomandi hafi verið kunnut um að símtal væri tekið upp eins og greinilega verður ef þetta orðalag sem er á 1. mgr. í 1. gr. þessa frv. verður haft þar áfram.