Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:59:54 (1402)

2000-11-03 16:59:54# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem frv. fær í þinginu. Það ber nýrra við að hv. þm. Samfylkingarinnar eru í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun sem býr að baki þessa frv. Það frv. sem hv. þm. Samfylkingarinnar hafa kynnt og mælt fyrir er raunar í nokkrum atriðum öðruvísi útfært en það frv. sem ég hef mælt fyrir.

Vegna þeirrar umræðu sem hefur farið hér fram vil nefna að það snýr fyrst og fremst að fréttamönnum. Þar er sérstakt ákvæði um það.

[17:00]

Auðvitað ræddum við þetta mjög ítarlega í ráðuneytinu og ég fór mjög vandlega yfir hvort eðlilegt væri að taka einn ákveðinn hóp út. Niðurstaða mín varð sú að eðlilegra væri að hafa almennt orðalag þannig að fleiri en fréttamenn gætu átt í hlut og gætu fallið undir þetta ákvæði 1. mgr., þ.e að þurfa ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.

Grundvallaratriðið í þessu frv. er sú niðurstaða, eins og ég gerði grein fyrir og hér hefur verið undirstrikað af hv. þingmönnum, að upptaka símtala er hlerun á grundvelli laga og dóma Mannréttindadómstólsins þannig að ekki verður undan því vikist að við tökum tillit til þess í okkar lagasetningu. Þess vegna förum við þessa leið í frv. En ég vil að gefnu tilefni segja að ég tel hvað varðar fréttamenn sem hér eru sérstaklega til umræðu í þessu sambandi, að það sé alveg ljóst að almenn auglýsing sem snýr að fréttamönnum um upptökur þeirra dugi til þess að ekki þurfi í hverju tilviki að nefna að samtöl þeirra séu tekin upp. Ég lít svo á að sú framkvæmd hlyti að vera framkvæmanleg og eðlileg. Ég vil að það komi fram. Ég tel að með því væri jafnframt öðrum hópum sem svipað á við um gert jafnhátt undir höfði hvað þetta varðar.

Hvað varðar athugasemd sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þar sem hann efaðist um hvort eðlilegt væri að ætla Persónuvernd svo mikilvægt hlutverk þarna. Persónuverndin gegnir geysilega mikilvægu hlutverki og ég fæ ekki séð annað en að það sé fullkomlega eðlilegt miðað við þann lagaramma sem henni er settur að hún hafi það hlutverk sem frv. gerir ráð fyrir og að alls ekki sé ástæða til þess að gera það tortryggilegt.

Ég hef heyrt þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og bíð spenntur eftir því að sjá það frv. sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur boðað að leggja fyrir þingið. En ég vona að hv. þm. sé alveg ljóst að það frv. sem ég er að flytja hér byggir á þeirri hugsun og þeirri niðurstöðu sem við höfum komist að í ráðuneytinu að upptaka samtala jafngildir hlerun og það sé óheimilt að okkar lögum. Ég vona að það sé alveg klárt.

Að öðru leyti þakka ég fyrir ágætar undirtektir og vænti þess að samgn. komist að góðri niðurstöðu og það verði ríkjandi sátt um þetta mál þegar það verður afgreitt frá þinginu.