Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:04:39 (1403)

2000-11-03 17:04:39# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fréttamenn hafa verið dálítið í þessari umræðu. En almennt held ég að það sé óumdeilt í þessu að það eru nokkrar starfsstéttirnar sem menn viðurkenna að til þess að starfsemi þeirra geti ,,fúnkerað`` almennilega, ef svo má að orði komast, þá þurfi þær að fá að taka upp. Fréttamenn eru einn af þeim hópum. Viðskiptastofnanir, bankar o.fl. eru aðrir aðilar sem einnig þurfa á þessu að halda. En vegna þess hvernig 1. mgr. er orðuð í frv. og hæstv. samgrh. segir að auglýsing tiltekinna starfshópa dugi til þess að menn megi vænta þess að tekið sé upp þá hlýt ég að spyrja líka vegna þess að það er ekkert skilgreint í 1. mgr. við hverja er átt: Ef t.d. félag glæpamanna í Grímsey gæfi út fréttatilkynningu um að öll samtöl inni á þeirra kontór væru tekin upp, mættu þeir þá sem þangað hringja ótvírætt ætla að þau séu tekin upp og þar með væru þeir undanþegnir þessu ákvæði vegna þess að í 1. mgr. er ekkert kveðið á um hvað við er átt? Þess vegna var ég að segja áðan, virðulegi forseti, að mér finnst hugsunin í þessu frv. góð, en frv. sjálft er handónýtt. Markmiðið er gott. En frv. sjálft gengur ekki upp. Verði þetta frv. að lögum og það dugi að tilteknir starfshópar, stéttarfélög eða ýmiss konar samtök, hvaða markmið sem þau hafa í tilverunni, gefi út almenna auglýsingu um að öll samtöl inni á þeirra kontór og kannski til þeirra félagsmanna séu tekin upp og þar með séu þau undanþegin meginreglu um skyldu til að tilkynna viðmælendum sínum að þau séu að taka upp samtöl, þá held ég, virðulegi forseti, að þessi hugsun gangi alls ekki upp.