Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:13:59 (1408)

2000-11-03 17:13:59# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á fullyrðingu hans um að allir hafi tekið vel í þetta frv. Mér fannst flestir sem tóku til máls vera með efasemdir um ágæti frv. Sumir hafa lýst stuðningi við þá hugsun sem þar kemur fram, en flestum finnst frv. loðið og óljóst og ekki ganga eins og það er núna.

Frv. eins og það er hugsað er til að verja einstaklinginn gegn því að samtöl við hann séu tekin upp á segulband og því aðeins má taka samtölin upp að ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Nú segir hæstv. ráðherra að það dugi að birta almenna auglýsingu um að viðkomandi ástundi slíkar upptökur og þá sé öllum skyldum fullnægt. Þar finnst mér hæstv. ráðherra kominn í mótsögn við það sem hann boðar sem grundvallarhugsun frv., þ.e. að verja einstaklinginn. Dugir þá að birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um að viðkomandi fjölmiðill ástundi upptöku á samtölum? Mér finnst þetta vera allt mjög loðið og óljóst og að mínum dómi ekki ganga sem lög.