Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:15:38 (1409)

2000-11-03 17:15:38# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé ofsögum sagt hjá mér að það séu sæmilegar viðtökur sem þetta frv. fær þó að ýmsir hafi boðað það, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að þeir muni koma með aðrar tillögur. Mér sýnist að grundvallaratriðið í þessu sé bærilega skilið af öllum þeim sem hér hafa talað.

Hins vegar er allt þetta mjög vandmeðfarið og ég hef lagt mjög mikla og ríka áherslu á að Persónuvernd komi að þessum málum öllum og reglur séu settar af Persónuvernd þar sem það á við. Það á að tryggja örugga framkvæmd í þágu einstaklinganna, þeirra sem gætu hugsanlega orðið fórnarlömb þeirra sem taka upp símtöl án þess að viðkomandi viti um það nema það sé gert með sérstökum aðgerðum og á grundvelli annarra laga.

Hvað um það. Mér finnst hv. þm. Ögmundur Jónasson hafa snúist í dag mun harkalegar sem andstæðingur frumvarpa en hann hefur gert gagnvart þessu frv. Ég treysti því að hann verði góður þátttakandi í því að afgreiða málið í gegnum þingið þrátt fyrir allt.