Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:17:29 (1410)

2000-11-03 17:17:29# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að mér finnast ýmsar mótsagnir koma fram í þessu frv. og í málflutningnum sem því fylgir. Mér finnst hins vegar að ótvírætt megi ætla að viðmælendum sé jafnan kunnugt að fréttamenn taki hugsanleg samtöl upp á segulband. Upp á það get ég skrifað. Spurningin snýst hins vegar um hvernig þessi samtöl eru nýtt, hvort þeim er útvarpað. Þá kemur ekki til kasta laga. Þá kemur til kasta siðareglna fréttamanna, hvernig þeir nýta efniviðinn, hráefnið sem þeir eru að vinna úr. Það verður aldrei tryggt með landslögum að þar fari allt á besta veg. Þar kemur innra eftirlitið til sögunnar.