Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:25:00 (1414)

2000-11-03 17:25:00# 126. lþ. 20.15 fundur 194. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (GSM-leyfi) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og ég fagna því að hæstv. samgrh. skuli lýsa því yfir að hann telji mjög æskilegt að samkeppni ríki á þessu sviði.

Ef maður heldur áfram að velta þessum hlutum fyrir sér, að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að ekki kemur til útboðs eða uppboðs á þessu eina leyfi sem eftir er. Þá hlýtur maður að spyrja: Komi til þess að fleiri en einn aðili sæki um og komi til þess að þeir aðilar sem um sækja uppfylli allir eðlileg skilyrði til að reka slík net, hvernig ætlar hæstv. samgrh. að leggja það fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að úthluta þeim leyfum, þ.e. hvaða hlutlægu reglur eiga að gilda í þeim tilvikum ef fleiri en einn aðili sækir um? Maður sér það ekki fyrir að það sé auðvelt að velja á milli komi til þess og því hefði ég haldið í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið, í ljósi þess að pláss er fyrir einn aðila til viðbótar á þessu tíðnisviði, að komi til þess að fleiri aðilar en einn sæki um hefði verið eðlilegra að bjóða það út. Því velti ég því fyrir mér undir ræðu hæstv. samgrh. hvort hugsanlega geti komið til þess að sæki fleiri en einn aðili um komi nýtt frv. sem bjóði upp á það að um útboð verði að ræða.