Þingvallabærinn

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:34:46 (1420)

2000-11-08 13:34:46# 126. lþ. 21.1 fundur 169. mál: #A Þingvallabærinn# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. forsrh. tvær spurningar varðandi Þingvallabæinn. Annars vegar hver fari með eignar- og yfirráð yfir bænum og hins vegar hvaða áform ríkisstjórnin hafi um nýtingu Þingvallabæjar í framtíðinni.

Herra forseti. Við höfum ekki oft rætt þjóðgarðinn eða málefni honum tengd á hv. Alþingi og er það athyglisvert miðað við þá stöðu sem þessi þjóðargersemi hefur í hjörtum landsmanna. Segja má að fimm bursta bærinn sé tákn Þingvalla innan lands og utan.

Nú hefur það gerst að togstreita hefur birst okkur í fjölmiðlum um Þingvallabæinn. Um það virðist ágreiningur hvernig nýta eigi húsið í framtíðinni. Í gegnum tíðina hefur búið þar prestur sem var jafnframt lengi staðarhaldari og þjóðgarðsvörður en þetta er nú breytt og sett hafa verið ný lög um þau málefni. Bærinn hefur verið prestssetur, bærinn er nýttur af ríkisstjórninni, m.a. til móttöku tiginna gesta og einhvers staðar er svo Þingvallanefnd sem vélar um málefni þjóðgarðsins.

Biskup Íslands hefur minnt á að prestshús á Þingvöllum hafi verið rifið þegar Þingvallabærinn var reistur fyrir Alþingishátíðina 1930 og eignir prestssetursins hafi verið teknar til þeirra nota og liggi óbættar og hefur spurt: Hvað með verðmæti sem kirkjunni voru ætluð?

Í tilefni af fjölmiðlaumræðunni mundi ég gjarnan vilja heyra hvernig mál standa. Hvernig mun ríkisstjórnin t.d. bregðast við því ef kirkjan óskar að hafa prest áfram á Þingvöllum þar sem prestur hefur haft afnot af húsinu á Þingvöllum í 50 ár og mun nú vanta húsaskjól? Bent hefur verið á 1000 ára sögu kristni í þessu sambandi. Menntmrh., sem er formaður Þingvallanefndarinnar, hefur upplýst að prestur geti þjónað á Þingvöllum án þess að búa í Þingvallabænum og Þingvallanefnd og forsrn. hafi full not fyrir þessa húseign sína. Því er ekki óeðlilegt að spyrja: Hvað með þjóðgarðsvörð? Mun hann búa í húsinu? Hvernig á að nýta húsið? Hver heldur um málin? Er það forsrn., er það Þingvallanefndin o.s.frv.? Ég er mjög áhugasöm um hvert svar hæstv. forsrh. verður um þetta mál.