Þingvallabærinn

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:37:51 (1421)

2000-11-08 13:37:51# 126. lþ. 21.1 fundur 169. mál: #A Þingvallabærinn# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til þess af því tilefni sem hv. fyrirspyrjandi veitir að fjalla um þetta mál þar sem það hefur nokkuð verið rætt í fjölmiðlum. Það var að frumkvæði Þingvallanefndar sem unnin var lögfræðileg álitsgerð um eignarhald á Þingvallabænum sl. sumar. Niðurstaða þeirrar álitsgerðar er einkar afgerandi og felst í stuttu máli í því að ríkið hafi fullt eignarhald á húsinu og Þingvallanefnd fari á grundvelli valdheimildar sinnar samkvæmt lögum nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, með eignarhald á Þingvallabænum og yfirstjórn þeirra mála er bæinn varða. Til þessarar niðurstöðu liggur greinargóð og ítarleg röksemdafærsla sem byggist, auk áðurnefndra laga um friðun Þingvalla, á könnun ýmissa annarra heimilda, þar á meðal fundargerða Þingvallanefndar.

Að því er varðar nýtingu bæjarins er til þess að líta að hann er eins og nú háttar tvískiptur. Annars vegar hefur vestari hluti hússins, sem reistur var undir tveimur burstum fyrir þjóðhátíðarnefnd 1974, ávallt verið nýttur sem opinber bústaður forsrh. Hefur sá hluti bæði nýst til einkaafnota fyrir ráðherrann sjálfan og í takmörkuðum mæli en miklu fremur og oftar til að taka á móti þeim fjölmörgu gestum sem hingað komi í boði forseta, ríkisstjórnar og einstakra ráðherra, einkum þó forsrh., en segja má að heimsókn til Þingvalla teljist fastur liður í dagskrá opinberra gesta hingað til lands. Hins vegar hefur eystri hluti hússins, sem reistur var undir þremur burstum fyrir Alþingishátíðina 1930, lengst af verið nýttur fyrir umsjónarmann þjóðgarðsins á Þingvöllum sem hefur haft þar bæði skrifstofu og dvalarstað. Seint á sjötta áratugnum tók þáverandi þjóðgarðsvörður, séra Jóhann Hannesson, jafnframt við prestsembættinu á staðnum. Af því tilefni er skýrt tekið fram í gerðabók Þingvallanefndar frá þeim tíma að bústaður prestsins væri í Þingvallabænum aðeins þar til önnur skipan yrði gerð á og fengi hann aðstöðu til búsetu þar meðan hann annaðist önnur störf á vegum nefndarinnar.

Árið 1970 var þessi skipan mála, þ.e. að sami maður gegndi prestsembætti á staðnum og jafnframt starfi þjóðgarðsvarðar, fest í lög. Þetta ákvæði var aftur numið úr lögum fyrir fáum árum og lá það til grundvallar að ekki væri heppilegt að veitingarvaldshafar væru hvor af öðrum öðrum bundnir við ráðstöfun starfa í þjóðgarðinum. Þingvallabærinn hefur því aldrei verið prestssetur með þeim réttaráhrifum sem því fylgja en búseta prests í Þingvallabænum skýrist af praktískum, sögulegum ástæðum sem eiga ekki lengur við. Ekki þarf að taka fram að allar viðgerðir og allur kostnaður á báðum þessum húsum undir þessum þremur og tveimur burstum hefur jafnan verið greiddur af ríkinu og færður til reiknings hjá forsrn., en ekki af kirkjunni af þessum sökum.

Varðandi fyrirhugaða nýtingu er rétt að hafa í huga að þarfir þjóðgarðsins með tilliti til starfsmannahalds eru aðrar en áður og gestagangur þar gerir kröfur til að ríkisstjórnin hafi meiri og betri aðstöðu til að taka þar á móti gestum. Þá eru hugmyndir alls ekki fullmótaðar um það hvernig bærinn verður nýttur. Þar þarf Þingvallanefnd fyrst og fremst að koma að málum í samráði við forsrn. sem Þingvellir heyra undir samkvæmt stjórnarráðslögum. Ég veit ekki annað en að fullt samkomulag sé milli Þingvallanefndar og ráðuneytisins um meðferð málsins en eins og ég segi er það ekki fyllilega afráðið. Þarna þarf sem sagt þjóðgarðsvörður að hafa ákveðna aðstöðu. Þarna þarf Þingvallanefnd að hafa ákveðna aðstöðu. Þarna þurfa prestar að geta haft ákveðna aðstöðu til undirbúnings athafna í kirkjunni en flestar athafnir eru ekki innan sóknar heldur utan sóknar. Menn koma að eins og í mörgum öðrum kirkjum, Árbæjarkirkju, Viðeyjarkirkju og slíkum kirkjum, en ef ég man þetta nákvæmlega eru aðeins 50 manns í þessari sókn. Hún ber því ekki sóknarprest með þessum hætti og ef þjóðgarðsvarðarhlutverkið er farið er lítið eftir af því.

Kirkjuþing hefur ályktað að halda beri út prestakalli tengdu Þingvöllum og þar sitji prestur. Það er út af fyrir sig málefni kirkjunnar að ákveða það þrátt fyrir að prestakallið sé orðið afar lítið og sjálfsagt það minnsta í landinu. Reyndar hefur verið gert allt of mikið úr öryggishlutverki þess að hafa prest á staðnum, m.a. vegna þess að viðvera prestanna á staðnum hefur alls ekki verið samfelld og langt í frá og ekki hefur verið talið hægt að leggja sérstakar kvaðir um viðveru í Þingvallabænum eða Þingvöllum utan hefðbundins vinnutíma.

Þá er þess að geta að á síðustu 6--10 árum hefur verkefni þjóðgarðsvarðar breyst algerlega frá því að vera aðallega til að segja mönnum sögu staðarins og hins vegar í að reka umfangsmikla starfsemi og þar á meðal verkstjórnarhlutverk yfir tugum manna á sumrin við stígagerð og annað þess háttar sem er ekki beint í hlutverki presta. Forsendur hafa því breyst og ég geri ráð fyrir að sú sé ástæðan fyrir því að Þingvallanefnd og reyndar ráðuneytið vilji skoða aðra möguleika.