Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:54:46 (1427)

2000-11-08 13:54:46# 126. lþ. 21.2 fundur 45. mál: #A einangrunarstöð gæludýra í Hrísey# fsp. (til munnl.) frá landbrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir að hafa vakið máls á þessu. Ég er sammála því að það eigi að reisa fleiri slíkar stöðvar og það á að reisa slíka stöð í nágrenni höfuðborgarinnar.

Ég vek líka eftirtekt á því að ekki er kunnugt um að nokkur sérstök hætta sé á því að vera með slíkar stöðvar í þéttbýli en vil síðan að lokum taka undir með hv. þm. Guðna Ágústssyni sem skoraði í reynd á Alþingi Íslendinga að taka þetta mál í sínar hendur.

Hæstv. ráðherra vekur eftirtekt á því að hér liggur fyrir lagafrv. sem getur að öllum líkindum tekið á þessu máli. Ég held að við þingmenn sem viljum breyta þessu ættum að notfæra okkur áskorun ráðherrans og beita okkur fyrir breytingum á frv. þannig að hægt sé að taka upp fleiri slíkar stöðvar. Það er löngu tímabært.

Ég sé heldur ekkert að því að slíkar stöðvar verði starfræktar af einkaaðilum.