Félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:05:25 (1432)

2000-11-08 14:05:25# 126. lþ. 21.4 fundur 141. mál: #A félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Þetta varpar ljósi á furðulegt ástand. Flest þeirra fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands eru sjávarútvegsfyrirtæki. Íslenskir aðilar eru að hefja útrás til að laða að sér erlenda fjárfesta. Þá kemur í ljós að þeim er bannað að festa fé sitt í stærsta hópi þeirra fyrirtækja sem eru skráð á Verðbréfaþingi.

Því til viðbótar eru takmarkanir settar á erlenda fjárfesta til að fjárfesta með óbeinum hætti, þ.e. til þess að eiga hlut í fyrirtækjum sem eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum, t.d. olíufélögunum. Það er að æra óstöðugan að elta uppi þær breytingar sem kunna að verða á eignarhaldi á slíkum fyrirtækjum sem eru ekki í sjávarútvegsrekstri en eiga hlut í fyrirtækjum í sjávarútvegi. Hvernig í veröldinni láta menn sér detta í hug að við svona aðstæður sé líklegt að erlendir fjárfestar fáist til þess að taka þátt í uppbyggingu í íslensku atvinnulífi, þegar flest þeirra atvinnufyrirtækja sem eru á markaðnum eru algjörlega lokuð og síðan gilda flóknar reglur um öll önnur fyrirtæki? Á sama tíma og aðrar þjóðir berjast um til að reyna að ná til sín erlendum fjárfestum til uppbyggingar í atvinnulífi þá ætla Íslendingar að fara út á markaðinn við slíkar aðstæður.

Ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála um að þetta nær engri átt. Þetta skilar engum árangri og þessum heimskulegu lagasetningum verður að breyta.