Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:09:08 (1434)

2000-11-08 14:09:08# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Á Íslandi búa núna ríflega 7.000 manns af erlendu bergi brotin. 8% kvenna á aldrinum 20--30 ára eru útlendingar. Hlutfall útlendinga í bæjarfélögum er hæst á Vestfjörðum en meiri hluti útlendinga hér á landi eða um 60% er búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Við þessa upptalningu má bæta að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins spáir því að íslenskt atvinnulíf þurfi á 10.000 manns að halda á næstu tíu árum. Ljóst er að sá fjöldi verður ekki allur fundinn meðal innfæddra Íslendinga.

Svo er forsjóninni fyrir að þakka að við búum ekki lengur ein á þessari eyju. Á undanförnum árum hefur mátt sjá vísa að fjölmenningarlegu samfélagi spretta víða um land. Fjöldi fólks hefur kosið að setjast hér að og með því auðgað mannlíf og menningu.

En eins og stundum áður, herra forseti, virðist ríkisstjórnin ekki vera með á nótunum og í raun ófær um að takast á við hinar miklu breytingar sem samfélagið gengur nú í gegnum. Sveitarfélögin hafa hins vegar mætt þessari þróun eftir bestu getu og er óhætt að fullyrða að Reykjavíkurborg hafi unnið algjört brautryðjendastarf í málefnum útlendinga. Borgin hefur m.a. starfrækt Miðstöð nýbúa sem hefur þjónað öllum þeim sem þangað hafa leitað burt séð frá búsetu, þar hefur m.a. verið veitt túlkaþjónusta.

Úr ranni ríkisvaldsins berast þær fréttir að starfshópur sem hæstv. félmrh. skipaði í lok síðasta árs til að kanna grundvöll fyrir stofnun landsmiðstöðvar eða annars samstarfsvettvangs um málefni útlendinga hafi verið leystur frá störfum. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. félmrh. hvers vegna það hafi verið gert.

Herra forseti. 11. október sl. rituðu borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórar Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness og sveitarstjóri Bessastaðahrepps, Davíð Oddssyni forsrh. bréf þar sem óskað var eftir viðræðum við ríkisvaldið um málefni nýbúa og samstarf og skyldur ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Þótt bréfið sé ekki stílað á hæstv. félmrh. er ljóst að málefnið hefur að mestu verið á hans könnu í ríkisstjórninni. Því leyfi ég mér að spyrja hvort hæstv. félmrh. hyggist tryggja þátttöku ríkis í stofnun landsmiðstöðvar, svokallaðs Alþjóðahúss, á höfuðborgarsvæðinu, sem veiti útlendingum búsettum hér á landi upplýsingar og þjónustu.