Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:11:46 (1435)

2000-11-08 14:11:46# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er nú nokkur misskilningur í því fólginn að telja að starfshópur sem ég setti varðandi málefni útlendinga hafi beinlínis verið leystur frá störfum. Ég vil hins vegar rekja ástæður fyrir því að starfshópurinn var skipaður og í hverju starf hans var fólgið.

Þessi starfshópur var skipaður í desember í fyrra í þeim tilgangi að kanna grundvöll fyrir stofnun landsmiðstöðvar. Starfshópurinn hóf störf í byrjun þessa árs. Forsendur fyrir því verkefni sem starfshópnum var falið á sínum tíma hafa breyst verulega.

Í fyrsta lagi samþykkti Alþingi þann 9. maí sl. þál. um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum. Í þál. er félmrh. falið að undirbúa stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum.

Í öðru lagi er félmrn. kunnugt um hugmyndir Reykjavíkurborgar og nokkurra nágrannasveitarfélaga um stofnun Alþjóðahúss í Reykjavík sem hafi það meginviðfangsefni að standa fyrir fjölþjóðlegu starfi, forvörnum og bættri og samræmdri þjónustu við nýbúa. Því fagna ég mjög. Í ljósi þessara aðstæðna taldi ég ekki starfsgrundvöll fyrir hópinn að halda áfram verki sínu að svo komnu máli en þeim gögnum og fróðleik sem starfshópurinn hefur aflað sér verður að sjálfsögðu haldið til haga og komið á framfæri þar sem við á.

Afstaða félmrn. til þátttöku ríkisins í stofnun Alþjóðahúss er með þeim hætti að mér var falið af Alþingi 9. maí sl. að standa fyrir stofnun nýbúamiðstövar á Vestfjörðum. Í samræmi við fyrrgreinda þál. hyggst ég standa vel að stofnun miðstöðvar fyrir nýbúa á Vestfjörðum og er stefnt að því að undirbúningur hefjist bráðlega. Hann er raunar þegar hafinn að nokkru. Enn fremur er talið æskilegt að kanna sérstaklega hvort miðstöðin á Vestfjörðum geti tekið að sér þjónustu við aðra landshluta.

Þau mistök urðu við prentun fjárlagafrv. fyrir árið 2001 að niður féll fjárveiting til þessa verkefnis en hún verður tekin inn við 2. umr. fjárlaga. Ráðuneytið mun því beina kröftum sínum að þessu mikilvæga verkefni í bili.

Hins vegar er afstaða ráðuneytisins til stofnunar Alþjóðahúss mjög jákvæð. Ég tel að þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem standa að stofnun Alþjóðahúss séu vel í stakk búin til að reka Alþjóðahús án atbeina ríkisins. Þar af leiðandi mun ráðuneytið ekki koma að þeim rekstri að svo komnu máli. Ég lít svo á að það sé miklu brýnna að beina kröftunum að landsbyggðinni og efla þjónustu og aðstoð við útlendinga sem búa þar fremur en á höfuðborgarsvæðinu þar sem málefnum nýbúa er þegar býsna vel sinnt.