Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:19:32 (1439)

2000-11-08 14:19:32# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hvers konar málflutningur er þetta af hálfu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar? Hver hefur komið hér og agnúast út í nýbúamiðstöð á Vestfjörðum? Enginn. Ég veit ekki betur en þeir hv. þm. sem hér hafa talað hafi nefnilega ekki lagst gegn nýbúamiðstöð á Vestfjörðum og það er hið besta mál að slík miðstöð skuli koma upp enda hefur komið fram í umræðunni og í fjölmiðlum að það eru 46 þjóðir sem þar eiga fulltrúa.

Það sem við erum að ræða hins vegar er þessi spurning: Hyggst hæstv. félmrh. beita sér fyrir því að ríkisstjórnin komi að stofnun Alþjóðahúss í Reykjavík? Við sem höfum verið að vinna að málefnum innflytjenda í Reykjavík vitum alveg hvaða nauður rekur þetta fólk á náðir yfirvalda. Við vitum stöðu þess og þekkjum. Þetta fólk býr við skort á upplýsingum, skort á réttindum, skort á stöðu, og málefni innflytjenda eru hæstv. ríkisstjórn til hneisu. Það er hv. þm. til hneisu að taka með þessum hætti á málinu, reyna að skrumskæla það og halda því fram að þeir ágætu þingmenn sem hafa tekið upp málefni innflytjenda séu með einhverjum hætti að agnúast út í Vestfirðinga. Heyr á endemi.