Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:20:47 (1440)

2000-11-08 14:20:47# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessi umræða fjallar ekki um hvort eigi að reisa miðstöð fyrir nýbúa á Vestfjörðum. Um það hefur Alþingi ályktað og samþykkt og eftir þeirri þál. starfar hæstv. félmrh. að sjálfsögðu. Spurningunni er hins vegar ósvarað, hvort hæstv. félmrh. ætlar hreinlega að afhenda sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þennan málaflokk og hvort ríkisvaldið hafi engum skyldum að gegna við útlendinga á höfuðborgarsvæðinu af því að þeir búa á höfuðborgarsvæðinu, hæstv. félmrh. Það er sú spurning sem hér er uppi. Hún útilokar að sjálfsögðu ekki að byggðar séu miðstöðvar fyrir útlendinga í öðrum landsfjórðungum.

Það sem er einkennilegt í þessum málflutningi er að hann endurspeglar enn og aftur óvild ríkisstjórnarinnar í garð sumra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem birtist m.a. í því að þessi sveitarfélög eru nógu góð til að sinna útlendingum á svæðinu og að ríkisvaldið hefur þar engum skyldum að gegna. Hverjir líða fyrir það? Fyrir það líður það fólk sem er búsett á höfuðborgarsvæðinu, útlendingarnir sem hafa ákveðið að búa hér og það er eins og það komi hæstv. félmrh. hreinlega ekki við.