Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:24:45 (1442)

2000-11-08 14:24:45# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þetta er nátengt síðustu fyrirspurn og lýtur að málefnum aðflutts fólks en með vaxandi alþjóðavæðingu færist það í vöxt að fólk flytjist landa á milli til búsetu eða í atvinnuleit til lengri eða skemmri tíma.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Bæði hefur fjöldi Íslendinga leitað út fyrir landsteinana og er það reyndar engin nýlunda. Á hinn bóginn hefur sú breyting orðið hér á landi á undanförnum árum að straumur fólks af erlendu bergi brotið hefur vaxið jafnt og þétt. Það hefur enn hraðað þessari þróun að þensla hefur orðið í ýmsum greinum atvinnulífsins með tilheyrandi skorti á vinnuafli og hefur beinlínis verið hvatt til þess að fá erlent vinnuafl hingað til lands.

Víða á landsbyggðinni eru nær allir starfsmenn í sumum fiskvinnslufyrirtækjum aðfluttir og hér á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu er það einkum í byggingariðnaði, stærri iðnfyrirtækjum og á sjúkrastofnunum sem sóst hefur verið eftir erlendu vinnuafli.

Mjög mikilvægt er að vel sé búið að fólki sem flyst hingað og er það skylda okkar að tryggja öllu fólki sem hér býr réttindi á vinnustað og í samfélaginu að öðru leyti sambærileg þeim sem aðrir njóta og kveðið er á um í lögum og kjarasamningum. Reynsla þeirra þjóða sem hafa ekki búið nægilega vel um hnúta hvað þetta varðar er sú að til hafa orðið illleysanleg félagsleg vandamál.

Margir Íslendingar sem hafa sest að á erlendri grundu þekkja af eigin raun hvers virði það er þegar vel er tekið á móti fólki og réttindi þess tryggð í hvívetna. Þannig hefur verið sérlega vel hlúð að börnum Íslendinga sem fylgt hafa foreldrum sínum til Norðurlanda til náms eða starfs. Þar hefur bæði skólakerfið og félagsþjónusta tekið þeim opnum örmum. Án efa verður ekki alhæft um hvernig atvinnurekendur sem sóst hafa eftir vinnuafli erlendis frá taka á móti aðfluttu fólki og eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er víðast hvar vel að verki staðið. Á þessu hefur þó verið misbrestur og hafa komið fram í fjölmiðlum upplýsingar um alvarleg tilvik þar sem hvorki kjarasamningar né önnur réttindi eru virt. Til þess að fólk geti staðið vörð um rétt sinn og sótt hann, ef því er að skipta eða hreinlega notið þeirrar þjónustu sem velferðarkerfið hefur upp á að bjóða á sjúkrastofnunum, í skólum eða innan félagsþjónustunnar, verður fólk að geta gert sig skiljanlegt og skilið aðra.

Það er staðreynd að leitað hefur verið eftir því að fá til landsins erlent vinnuafl. Íslendingar verða að átta sig á því að þeim ber lagaleg og siðferðileg skylda til að tryggja aðkomufólki grundvallarréttindi og því er spurt:

1. Hvað líður stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda?

2. Hvaða kvaðir eru lagðar á atvinnurekendur til að tryggja réttindi innflytjenda sem þeir ráða til starfa og á hvern hátt er fylgst með því að þeir fari að lögum og settum reglum?

3. Er innflytjendum sem ekki hafa vald á íslensku tryggð túlkaþjónusta til að leita réttar síns og nýta þjónustu sem þeim ber innan velferðarþjónustunnar og réttarkerfisins eða annars staðar þar sem á þarf að halda?