Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:36:06 (1446)

2000-11-08 14:36:06# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil halda beint áfram þar sem hv. síðasti ræðumaður sleppti orðinu. Það er mjög þýðingarmikið að þessu fólki verði sinnt í skólakerfinu. Þar sem ég þekki best til, á Vestfjörðum, hefur fyrst og fremst verið verkafólk af erlendu bergi brotið við ýmsar atvinnugreinar, síðan er það farið að átta sig á því að velferðarkerfið, skólakerfið okkar er að mörgu leyti gott og það er því farið að flytja með sér fjölskyldur hingað. Börnin koma inn í skólana við afar erfiðar aðstæður, bæði fyrir þau sjálf, þá sem vinna í skólunum og heimili barnanna. Í íslensku grunnskólalögunum eru engin skýr ákvæði um hvernig fara skuli með mál af þessu tagi og afgreiðsla skólanna, þó þeir séu allir af vilja gerðir, er afar mismunandi. Þessi atriði, hæstv. félmrh., er mjög nauðsynlegt að verði tekin þegar þessi mál verða skoðuð og fundin viðunandi lausn svo að ekki fari þannig að við fáum nemendur sem verða annars flokks í íslensku þjóðfélagi vegna þess að þeim hefur ekki verið hægt að sinna nægilega.