Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:40:26 (1449)

2000-11-08 14:40:26# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að það er mjög mikilvægt að fylgjast með einmitt unglingunum eða börnunum og hvernig þeim tekst að aðlagast íslensku samfélagi. Ég get sagt góðar fréttir af því og ég get sagt af því slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru t.d. þær að fyrir fjórum árum komu flóttamannafjölskyldur til Ísafjarðar. Ein stelpa úr þessum flóttamannafjölskyldum lauk prófi frá menntaskólanum á Ísafirði í fyrravor og starfar nú sem túlkur á Siglufirði. Hún talar svo góða íslensku að maður áttar sig ekki á því að þar sé um útlending að ræða.

Í Laugabakkaskóla í Miðfirði voru 10% nemendanna í fyrravetur tvítyngd. Í grunnskólum Reykjavíkur eru líklega upp undir 700 nemendur tvítyngdir, þ.e. annaðhvort með annað foreldrið erlent eða eru fæddir erlendis af íslenskum foreldrum en hafa búið mestan sinn aldur í útlöndum og þurfa stuðningskennslu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir 75 þús. kr. á hvern tvítyngdan nemanda í sveitarfélögum sem eru ekki svo núllstillt eins og Reykjavík er, en ég tel að jöfnunarsjóður ætti líka að snúa sér að aðstoða Reykjavík í þessu efni.

Norðurlandsamningur um félagslega aðstoð tryggir t.d. Norðurlandabúum að þeir megi tala á eigin tungu og tryggir þeim túlkun. Miðstöð nýbúa rekur túlkaþjónustu gegn gjaldi en þær stofnanir sem óska eftir túlkaþjónustu greiða yfirleitt fyrir þjónustuna.

Félmrn. hefur gengist fyrir námskeiðum og er með eitt námskeið í gangi núna fyrir hjúkrunarfólk og það lofar mjög góðu. Við höfum verið að gefa út ritlinga eða hefti til stuðnings útlendingum á ýmsum tungum, ásamt með verulega vandaðri handbók fyrir þá sem vinna með útlendinga.