Sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:43:22 (1450)

2000-11-08 14:43:22# 126. lþ. 21.8 fundur 185. mál: #A sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Nú liggja fyrir áform hæstv. umhvrh. um aðgerðir vegna mengunar frá olíuskipinu El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar og ber að fagna því að þeirri mengunarhættu sem vofir yfir þar verði afstýrt og vonandi munu þær aðgerðir ganga vel.

Auðvitað hafa fjölmörg skip sokkið við Ísland og á miðunum í kringum landið í gegnum tíðina. Það hlýtur að vera verkefni stjórnvalda að afla upplýsinga um þá mengunarhættu sem getur skapast af slíkum flökum. Lægju þeir skipsskrokkar á þurru landi, sem eru á hafsbotni í kringum Ísland, er ekki vafi á því að stjórnvöld mundu bregðast við vegna mengunarhættu. Slík flök yrðu fjarlægð og mengunarefni a.m.k. fjarlægð úr þeim. Nú kann að vera að langflest þessara skipsflaka valdi ekki hættulegri mengun en þó hlýtur að vera nauðsynlegt að fylgjast með og skrá hugsanlega mengunarhættu frá þeim.

Tilgangur minn með því að vekja upp umræðu um þessi mál er að ég vil ganga úr skugga um að þessari mengun, sem er örugglega til staðar í kringum landið, sé fylgt eftir að skoða þannig að mögulegt sé að taka ákvarðanir ef þörf er á aðgerðum. Þess vegna ber ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. umhvrh.:

1. Frá hve mörgum skipsflökum sem vitað er um í sjó umhverfis landið er talið að stafi hætta á mengun?

2. Eru að mati umhverfisráðherra nægilega nákvæmar upplýsingar fyrir hendi um mengunarhættu frá skipsflökum eða öðrum mengunarvöldum í sjó í kringum landið og ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherra þá fyrir til úrbóta?

3. Er þörf bráðra aðgerða vegna mengunarvalda í sjó og ef svo er, hver eru þá brýnustu verkefnin?

Ég vil bæta við örfáum orðum. Við vitum um flök þar sem skip hafa sokkið með mengunarefnum um borð. Þekkt dæmi eru um það. Menn hafa lagt hendur í skaut gagnvart þeim málum og talið að lengi tæki sjórinn við en ég hef grun um að vísindaleg umfjöllun um einstök slys sem hafa orðið á miðunum kringum landið og við ströndina hafi kannski ekki verið afskaplega mikil. Ég tel að fjalla þurfi um hvert einstakt tilfelli þegar það kemur upp, skrá það og fylgjast síðan með þeim flökum og mengunarvöldum sem menn telja ástæðu til að fylgjast með og grípa til aðgerða ef þörf er á. Þess vegna er þetta mál vakið upp til umræðu á hv. Alþingi og ég vonast eftir skýrum svörum frá hæstv. ráðherra um hvað hann hyggist fyrir í þessum efnum.