Sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:46:32 (1451)

2000-11-08 14:46:32# 126. lþ. 21.8 fundur 185. mál: #A sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin er: Frá hve mörgum skipsflökum sem vitað er um í sjó umhverfis landið er talið að stafi hætta á mengun?

Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum nefndar sem starfaði á vegum umhvrn. og falið var að fjalla um álitamál er snúa að úreldingu, niðurrifi og förgun skipa og skilaði niðurstöðum í mars í fyrra, liggja 87 skip víða í fjörum, í hafnalegum eða eru naustuð. Flök sem liggja í fjörum eða annars staðar og enginn vill kannast við ábyrgð eða eignarrétt á eru alls 66 og skip sem liggja í höfnum eða slippum og eignarréttur og ábyrgð liggur óumdeilt fyrir eru alls 21.

Samkvæmt svokallaðri flakaskrá sem unnin var á vegum Siglingamálastofnunar á árunum 1994--1996 og geymir upplýsingar um öll skipsflök, sokkin sem ósokkin, frá 1926--1996 eru flökin um þúsund í íslensku efnahagslögsögunni.

Fjöldi erlendra skipa sem sökkt var á stríðsárunum er rúmlega 100. Ljóst er að veruleg mengunarhætta stafar af einu skipi, El Grillo, sem liggur á botni Seyðisfjarðarhafnar og hefur verið ákveðið að grípa til viðeigandi ráðstafana á næsta ári til að koma í veg fyrir mengun eins og kunnugt er.

Annað skip, lítill olíuflutningaprammi, Haskel, 130 tonn að stærð sökk út af Hvammsfirði í Hvalfirði í júlí 1962. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var prammi þessi fullur af þykkri svartolíu sem viðbúið er að sé orðinn einn köggull og því hættulaus. Það mál er til sérstakrar athugunar hjá Hollustuvernd ríkisins sem stendur og verður gripið til viðeigandi ráðstafana í framhaldi af því.

Í örfáum tilvikum hafa olíutunnur úr skipum sem sökkt var á stríðsárunum komið í veiðarfæri. Að öðru leyti er ekki hægt að segja að bein mengunarhætta stafi af skipum sem liggja í fjörum, hafnarlegum eða eru naustuð en óneitanlega eru af því lýti og þeim fylgir sóðaskapur og slysahætta.

Í öðru lagi er spurt hvort fyrir liggi nægar upplýsingar varðandi mengunarhættu frá skipsflökum eða öðrum mengunarvöldum í sjó í kringum landið og sé svo ekki, hvað ráðherra hyggist þá gera til úrbóta.

Því er til að svara að ég tel að nægar upplýsingar séu til staðar. Í áðurnefndri flakaskrá, sem reyndar þarf að uppfæra, og í áliti nefndar sem ég gat um hér á undan er málinu gerð góð skil. Sem stendur er á vegum stjórnskipaðrar nefndar unnið að gerð frv. til nýrra laga um varnir gegn mengun hafsins undir heitinu Verndun umhverfis hafsins og stranda. Þessi vinna er vel á veg komin og vænti ég þess að geta lagt frv. fram fljótlega eftir áramót.

Nefndinni var sérstaklega falið að vinna úr skýrslu þeirrar nefndar sem ég gat um hér á undan, m.a. hvernig skuli taka á skipsflökum sem liggja á víð og dreif umhverfis landið. Samkvæmt upplýsingum frá formanni nefndarinnar er gert ráð fyrir ákvæði í frv. þar sem reiknað er með að gert verði átak í því á næstu árum að fjarlægja þessi flök og koma þeim í endurvinnslu, enda þekking og tæki til þess í landinu hvort sem um er að ræða tréskip, stálskip eða plastbáta. Ég vænti þess að Alþingi fái fljótlega tækifæri til að taka afstöðu til þessa máls.

Varðandi þriðju spurninguna: Er þörf bráðra aðgerða vegna mengunarvalda í sjó og ef svo er, hver eru þá brýnustu verkefnin?

Ekki er þörf á bráðum aðgerðum en á vegum ráðuneytisins starfar sérstök bráðamengunarnefnd sjávar sem fengið er það hlutverk að standa fyrir rannsóknum á þeim þáttum sem vantar í gagnagrunn sem þegar hefur verið unninn, endurskoða og fara yfir áætlanir um viðbrögð við mengunaróhöppum, annast áhættugreiningu í ljósi upplýsinga í núverandi gagnagrunni auk annarra upplýsinga, veita ráðuneytinu ráðgjöf um þau atriði sem upp kunna að koma þegar meiri háttar óhöpp verða og fara yfir atburðarás að aðgerðum loknum og meta árangur þeirra aðgerða sem gripið var til.

Að mati bráðamengunarnefndarinnar er brýnasta verkefnið sem stendur að kortleggja þau verðmæti sem eru í húfi þegar óhapp verður sem getur valdið mengun sjávar og stranda, hvort sem er frá starfsemi í sjó eða landi. Í þessu skyni hefur nefndin í samráði við umhvrn. hafið kortlagningu á ströndinni frá Dyrhólaey, vestur fyrir Reykjanes og norður á Snæfellsnes þar sem fram koma nauðsynlegar upplýsingar um þau verðmæti sem væru í hættu ef mengunaróhapp yrði. Þetta kort, svokallað vákort af suður- og suðvesturströnd landsins, yrði notað sem stjórntæki og enn fremur til að veita sjófarendum og öðrum upplýsingar um þau verðmæti sem eru í húfi.