Jarðskjálftarannsóknir

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 15:01:01 (1456)

2000-11-08 15:01:01# 126. lþ. 21.7 fundur 100. mál: #A jarðskjálftarannsóknir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það kemur mér mjög á óvart að hæstv. umhvrh. hafi ekki kynnt sér innihald skýrslu sem unnin hefur verið á vegum Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi. Þar er afar vel og ítarlega farið yfir þá áhættuþætti sem þarf að greina og hvaða vinnubrögð þarf að viðhafa á næstu árum til að gera úttekt á öllum þeim virku jarðskjálftasvæðum sem til eru á landinu. Við höfum, nokkrir þingmenn, lagt fram á þskj., 116. mál þessa þings, tillögu um hvernig staðið verði að þessum málum. Sem fskj. þar með er samantekt frá rannsóknarmiðstöðinni á Selfossi. Þannig hefðu verið hæg heimatökin fyrir hæstv. ráðherra a.m.k. að lesa þá samantekt í stað þess að láta taka sig svo í bólinu eftir þá alvarlegu atburði sem urðu á Suðurlandi að hún hefur ekki einu sinni kynnt sér fyrirliggjandi gögn.