Jarðskjálftarannsóknir

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 15:02:19 (1457)

2000-11-08 15:02:19# 126. lþ. 21.7 fundur 100. mál: #A jarðskjálftarannsóknir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það kemur mér mjög á óvart og veldur mér reyndar vonbrigðum að þessi gögn hafi ekki borist virðulegu umhvrn. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að það þau berist fljótt og vel, enda er það í verkahring jarðskjálftamiðstöðvarinnar að koma þessum gögnum til ráðuneytisins.

Ég geri mér líka grein fyrir því að þetta snertir fjölmörg ráðuneyti. Umrædd háskólastofnun á Selfossi sem sér um jarðskjálftarannsóknir tilheyrir auðvitað menntmrn. Eins og fram hefur komið eru þetta mjög merkilegar upplýsingar og í framsögu minni kom fram að segja mætti að vísindasamfélagið sé á undan okkur. Oft er talað um vísindamenn með ákveðinni lítilsvirðingu, eins og þeir séu grúskarar að dunda sér úti í hornum, en í þessum tilfellum eru þeir komnir langt á undan okkur. Það er skylda okkar hér á Alþingi að nýta þessar upplýsingar sem allra best til að búa fólkið sem býr á þessum svæðum undir vá sem þessa. Rannsóknir vísindamanna bjóða upp á þann möguleika.

Ég fagna því sem fram kom í svari ráðherra að hún hyggist láta gera áhættugreiningu í samvinnu jafnmargra stofnana og fram kom. Það er mjög mikilvægt og ég undirstrika að það er skylda okkar á Alþingi að styrkja þetta vísindaumhverfi til að vera betur búin undir atburði eins og þá sem gerðust 17. og 21. júní sl.