Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:14:50 (1463)

2000-11-09 11:14:50# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég á satt að segja dálítið erfitt með að svara þessu andsvari. Í fyrsta lagi skal enginn væna mig um það að ég vilji ekki jafna stöðu sveitarfélaga landshorna í millum. Það voru aldrei mín orð að ég stæði gegn slíku. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort þessi jöfnunaraðgerð væri ekki komin á valtar fætur þegar jöfnunarsjóður, sem er sumpart skömmtunarsjóður og við höfum a.m.k. hér á hinu háa Alþingi í löggjafarsamkundunni lítið um að segja, er kominn í þessar himnahæðir sem raun ber vitni um, 13 milljarða kr. Er það sú leið sem við viljum fara í samskiptum ríkis og sveitarfélaga? Nei, ég held að margir séu mér sammála um að við þurfum að hugsa það mál upp á nýtt.

Ég sagði það líka alveg kvitt og klárt að það væri fagnaðarefni að menn skyldu leiðrétta fasteignaskattinn. Hitt skulum við auðvitað rifja upp að á sínum tíma var það vilji sveitarstjórnarmanna sjálfra, ekki síst úti á landi, að hafa þetta viðmið sem við höfum búið við en í seinni tíð þegar fasteignaverð hefur snarlækkað úti á landi í tíð þessarar ríkisstjórnar og húsin verða meira og minna verðlaus, hefur fólk eðlilega kvartað og því er að mæta, og ríkisstjórnin lofaði því í upphafi þessa kjörtímabils að hún ætlaði að lagafæra það. Það er því gott og blessað.

En hvað ætli kjósendur hv. þm. segi á Suðurlandi þegar fasteignaskatturinn lækkar í þessu bréfi og útsvarið hækkar í hinu bréfinu og menn standa bara jafnsettir eftir? Þá fer lítið fyrir þessum stóru loforðum um skattalækkun á landsbyggðinni, á Suðurlandi eða annars staðar. Þá fer hún fyrir ansi lítið. Ég segi á sama hátt að framsóknarmennirnir á þessari fjármálaráðstefnu hafa verið í einhverju skrýtnu horni hafi þeir upplifað þetta sem einhverja hamingju og eilífa hallelújasamkomu. Það er bara ekki þannig. Ég bið menn að gaumgæfa póstinn sinn og skoða þær sendingar sem við erum að fá hér í þinginu í þessa veru. Það er engin gleði og engin ánægja með þetta. Það er alveg sama hvernig menn velta þeim peningi.