Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:26:18 (1470)

2000-11-09 11:26:18# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það frv. byggir í megindráttum á tillögum nefndar sem félmrh. skipaði 2. júní 1999 til að endurskoða ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga. Það er staðreynd að á síðustu árum, ekki síst á þessu ári, hefur hin erfiða fjárhagsstaða sveitarfélaganna orðið til þess að þau hafa orðið að skuldsetja sig í auknum mæli til að geta staðið við þær skuldbindingar og þau verkefni sem þeim ber að sinna.

Til viðbótar þessu hafa lánskjör sveitarfélaga á lánamarkaðnum farið hríðversnandi, sérstaklega á þessu ári, þannig að heita má að þau sveitarfélög sem eru orðin skuldug og háð lánardrottnum í rekstri sínum og verkefnum séu nánast ofurseld þeirri okurvaxtastefnu sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á gagnvart einstaklingum, sveitarfélögum og minni fyrirtækjum.

Ég bendi á að þetta, herra forseti, er staðreynd, fyrir utan þá tæpu og lélegu tekjustofna sem þau hafa haft til að verja í aukin verkefni. Aðgengi þeirra að lánsfé hefur versnað og kostnaður við það stóraukist, sérstaklega núna á síðustu tveimur árum og kastar nú tólfunum á þessu ári.

Vík ég þá aðeins að þeim atriðum sem í frv. eru dregin fram til að jafna tekjumun á milli ríkis og sveitarfélaga. Víkjum fyrst að því sem má segja að gott sé.

Það er vissulega fagnaðarefni að breyta eigi álagningu fasteignaskatts og miða hann við sem næst markaðsvirði fasteignanna. Það er í sjálfu sér réttlætismál og réttlætiskrafa. Í sjálfu sér, herra forseti, hefði ekki verið bein ástæða til að skipa nefnd til að taka á því máli einu og sér. Ekki veit ég betur en í ríkisstjórnarsáttmála hæstv. núv. ríkisstjórnar sé einmitt vikið að þessu máli. Sé einnig litið á tillögur sem hér hafa verið samþykktar á Alþingi um jöfnun á milli sveitarfélaga og íbúa varðandi búsetu þá hefði þessi breyting í sjálfu sér átt að koma til framkvæmda fyrir ári. Þá lá fyrir, að því er virtist og var ekki hægt að skilja það með öðrum hætti, pólitískur vilji Alþingis og stefna ríkisstjórnarinnar. Þetta átti því að geta komið þá strax til framkvæmda. Það er því með blöndnum hug sem maður lofar þetta tiltak. En kannski verður að fagna þarna hverju skrefi þó að því hafi í raun fyrir löngu verið lofað eða gert ráð fyrir að sú leiðrétting kæmi miklu fyrr.

[11:30]

Hvað varðar aðrar leiðréttingar fyrir sveitarfélögin þá held ég að sú staðreynd blasi við okkur sem erum að fjalla um fjárlög ríkis og sveitarfélaga, að á síðustu árum hefur ríkissjóður í rauninni flutt halla sinn og vanda yfir á sveitarfélögin. Samtímis því að sveitarfélögin hafa orðið að axla aukna ábyrgð hefur ríkissjóður létt af sér ábyrgð, og samhliða því að Alþingi ákveður tekjustofnana og hvar hver þeirra skuli lenda vill svo til að þeir tekjustofnar sem eru ríkisins megin eru einmitt þeir tekjustofnar sem vaxa og bólgna upp í því neysluumhverfi sem við höfum búið við hin síðari ár þar sem eru skattar á innflutning, veltu, vöru og þjónustu. En sveitarfélögin hafa átt sína hlutdeild í þeim sköttum sem snúa beint að og eru tekjutengdir einstaklingunum og fyrirtækjunum. Þessar tekjur ríkissjóðs hafa vaxið mun hraðar en aðrir tekjustofnar og þess vegna hallast líka á klakk ríkisstjórnarinnar og klakk almennings.

Ég dreg þetta fram því að þetta er það sem endurskoðunarnefndin átti að skoða, hvernig hægt væri að breyta í grunninn tekjustofnum sveitarfélaga og skiptingu þeirra tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga því að það er nú svo, herra forseti, að þetta eru ekki tvær óaðskiljanlegar stofnanir eða tvö óaðskiljanleg ríki, sveitarfélögin og ríkissjóður, þetta er sameiginlegur opinber aðili okkar allra og getur þess vegna ekki rekið sig einn óháður öðrum.

Í frv. er ekki farið inn í neinar beinar kerfisleiðréttingar á tekjuskiptingunni sem slíkri sem hefði þó verið eðlilegt. Sú leið er valin að auka millifærslur til jöfnunarsjóðsins og síðan sé það þá hans að útdeila. Staðreyndin er sú að jöfnunarsjóði var í sjálfu sér fyrst og fremst ætlað að deila út á milli sveitarfélaga og jafna stöðu þeirra en ekki beint að vera milliaðili fyrir ríkissjóð til þess að skapa eðlilega tekjustofna sveitarfélaganna sjálfra. Þetta hefur þá afleiðingu gagnvart sveitarfélögunum að þau eru í rauninni orðin kannski meira háð jöfnunarsjóðnum en ríkinu því að þar koma svo nýjar og nýjar reglur um úthlutun fjármagns úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna, reglur sem geta í sjálfu sér breyst, þess vegna árlega. Mörg sveitarfélög verða því í hreinustu vandræðum með að gera fjárhagsáætlanir sínar vegna þess að þau verða að bíða með þær, þau fá meginhluta eða stóran hluta ráðstöfunartekna sinna frá jöfnunarsjóðnum og verða því að bíða eftir því að ljóst sé bæði hve mikið fjármagn er þar og hvaða úthlutunarreglur verða í gildi áður en þau geta gert fjárhagsáætlanir sínar og fjárskuldbindingar.

Þó að líta megi á þessa leið sem bráðabirgðaleið, þ.e. að nota jöfnunarsjóðinn með þessum hætti, þá er alveg útilokað að líta á þetta sem einhverja framtíðarleið. Það er hreinlega alveg útilokað að hugsa sér að tekjustofnar sveitarfélaga eigi að vera í auknum mæli bundnir við framlög í gegnum jöfnunarsjóð. Það verður að finna einhverja aðra altæka leið sem sveitarfélögin gætu átt beina hlutdeild að. Eðlilegt hefði verið að þessi nefnd hefði skoðað hvernig sveitarfélögin gætu átt aðild og átt þátt í öðrum tekjustofnum, tekjustofnum sem tengjast rekstri og atvinnustarfsemi og veltu. En nefndin hefur gersamlega vikið sér undan því, enda eins og ég sagði áðan virðist hún hafa verið meira upptekin af hreinum neyðarlausnum og neyðarviðbrögðum frekar en taka heildstætt á málum.

Tökum sem dæmi: Lögð eru til eins konar fólksfækkunarframlög, eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir, 700 millj. sem gert er ráð fyrir að komi inn á fjáraukalögum þessa árs til jöfnunarsjóðs til útdeilingar og síðan aftur 700 millj. kr. í eins konar fólksfækkunarframlög á fjárlögum næsta árs. Þessi túlkun undirstrikar þá miklu byggðaröskun sem verið hefur í landinu og vanda sveitarfélaganna sem henni tengist. Það er alveg klárt og þess vegna eðlilegt að við því sé brugðist á einhvern hátt. En þetta eru meira skyndilausnir til að bjarga einhverju á líðandi stundu nánast, en fólksfækkunarframlög geta aldrei orðið neinn varanlegur tekjustofn fyrir sveitarfélög. Það væri a.m.k. afar óeðlilegt ef sú pólitíska stefna væri rekin héðan af hinu háa Alþingi, að sveitarfélögin ættu að reikna með því að fjármagna sig stöðugt á fólksfækkunarframlögum.

Það fer nú svo, herra forseti, að það fækkar og fækkar í þeim sveitarfélögum, verkefnin kannski að miklu leyti óbreytt og svo þegar fækkunin er orðin það mikil að ekki getur fækkað meir en áfram standa sveitarfélögin með þessi verkefni, þá munu þau ekki fá þessi fólksfækkunarframlög. Fólksfækkunarframlögin eru því á vissan hátt fölsk gagnvart þessum vanda, þau ná ekki til hans nema akkúrat vegna þeirra sem eru að fara burt á hinni líðandi stundu og er útilokað að líta á þetta sem einhvern varanlegan tekjustofn og því síður að hreykja sér af því að bjarga sveitarfélögum og rekstri þeirra stöðugt með fólksfækkunarframlögum. Þar þarf að koma til stefna í atvinnumálum og í byggðamálum sem gerir slík fólksfækkunarframlög óþörf en þá stefnu skortir.

Hvað varðar þá leið að gefa sveitarfélögunum aukna hlutdeild í útsvarsálagningu að hluta en síðan aukna heimild til að hækka þá skattlagningu, þá gefur þetta í sjálfu sér ekkert aukið svigrúm til tekjuöflunar fyrir þau sveitarfélög sem eru með íbúa sem hafa tiltölulega lágar tekjur. Þetta eru í rauninni skilaboð til þessa fólks um að það verði bara að lifa þarna hvert á öðru. Mér finnst þessi tillaga sem hér er, að bjóða upp á hækkun útsvars í heild sinni, nánast vera móðgun sérstaklega við þau sveitarfélög sem eru í vanda og íbúarnir með lágar tekjur.

Fram hefur komið að tveir stórir málaflokkar eru settir til hliðar í frv. og ekki er tekið á þeim. Það er í fyrsta lagi grunnskólinn og þau auknu fjárútlát og þær auknu skuldbindingar sem sveitarfélögin hafa mátt taka á sig við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin tóku við grunnskólanum eftir langvarandi svelti af hálfu ríkisstjórnarinnar og það var vitað mál að það mundi verða að koma verulega til móts við þau og auka fjármagn til þeirra. Auk þess kom krafan til um einsetningu skólans, síðan hefur verið fylgt fastar eftir ýmsum ákvæðum grunnskólalaga um kennsludaga, um starfsdaga og ýmislegt fleira sem áður var fylgt eftir með öðrum hætti en hefur nú verið fylgt fastar eftir eða á þann hátt að leitt hefur til aukins kostnaðar fyrir sveitarfélögin. Það hefur sem sagt ekki verið tekið á vanda grunnskólans og þar er talað um að milljarða króna vanti, bæði vegna undanfarandi ára og þeirra sem fram undan eru. Deilt er um hversu margir milljarðar það eru en það er ljóst að þarna er samt um milljarða króna að ræða. Það er því verulegt gat hér á ferðinni meðan það er óleyst.

Þá vil ég líka koma að vanda félagslega íbúðakerfisins en einmitt sömu sveitarfélög sem eru í hvað mestum skuldum og vantar tekjur til rekstrar síns eru í hvað mestum vandræðum þar. Félagslega íbúðakerfið var á sínum tíma hluti af húsnæðisstefnu ríkisvaldsins, það var lagt þannig upp, og síðan var það lagt inn sem hluti og tengt almennum kjarasamningum. Og meira að segja úthlutun fjár og ráðstöfun þessara íbúða var gjarnan tengt kjarasáttmála sem að komu bæði ríki, sveitarfélög og launþegasamtök og síðan opinberir lánasjóðir. Það er því afar óeðlilegt að sveitarfélög vítt og breitt um landið skuli ein sér látin axla stöðu sem uppi er með fólksflótta og flutningi atvinnufyrirtækja úr sínum héruðum sem mun leiða til mikils tekjumissis, að sveitarfélög skuli ein sér vera látin bera þennan opinbera vanda sem er samstarfsverkefni þessara aðila og sú stefna alveg furðuleg sem hæstv. félmrh. ýjaði hér að, að verið væri að leita að því hvaða kýr mætti leiða úr fjósi þessara sveitarfélaga upp í þær skuldir í staðinn fyrir að taka eðlilega og sameiginlega á þessu. Ég tel að frv. um tekjustofna sveitarfélaga og um aðgerðir til tekjujöfnunar milli ríkis og sveitarfélaga sem ekkert taka á þessum tveimur stóru málaflokkum, annars vegar á grunnskólanum og skólamálunum í heild og hins vegar á félagslega íbúðakerfinu, sé harla magurt.

Hins vegar ber að fagna þeirri yfirlýsingu sem gefin er þar sem lagt er til að við samþykktir á nýjum lögum á Alþingi séu þau jafnframt kostnaðartekin, þ.e. hvaða áhrif þau hafi fyrir útgjöld sveitarfélaga. Alþingi hefur á undanförnum árum samþykkt lög á lög ofan sem hafa síðan skuldbundið sveitarfélög til kostnaðar. Dæmi eru um ákveðin verkefni í grunnskólunum og um fráveitumálin sem er stórmál án þess að þeim fylgi tekjustofnar.

Herra forseti. Ég vil ítreka að þó að punktar og atriði séu í lagafrv. sem eru til bóta, sérstaklega tímabundið, þá er fjarri því að fyllt sé upp í þær væntingar sem bornar voru til tekjustofnanefndarinnar um leiðréttingu á tekjustofnum sveitarfélaga. Ég legg áherslu á að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum leggja áherslu á að í meðförum þingsins verði barist fyrir leiðréttingum á þessu frv. til handa sveitarfélögunum.