Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:46:35 (1471)

2000-11-09 11:46:35# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:46]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er frv. sem hér er til umræðu byggt á áliti svokallaðrar tekjustofnanefndar sem ég veitti formennsku. Ég vil taka það fram að í nefndinni var ágætissamstarf um þetta mál sem er viðamikið og hefur hlotið mjög mikla umræðu í samfélaginu og sú umræða var allar götur áður en nefndin lauk sínum störfum.

Markmið nefndarinnar var að tryggja að tekjustofnar sveitarfélaga séu á hverjum tíma í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum er lögskylt að sinna. Í erindisbréfi okkar segir enn fremur að stefnt skuli að því með endurskoðuninni að viðhalda einföldu og sveigjanlegu tekjustofnakerfi sem jafnframt skapi sveitarfélögunum nægjanlega tekjustofna til að sinna lögbundnum verkefnum.

Niðurstaða nefndarinnar var í stuttu máli sú að styrkja þyrfti fjárhagslega stöðu sveitarfélaga. Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem nýlega er liðin komu fram þær raddir, hvað sem segja má um afstöðu sveitarstjórnarmanna almennt til þessara tillagna, að mikilvægt væri að sú viðurkenning hefði fengist. Það er ljóst og þarf ekki að deila um það. Niðurstaða nefndarinnar var að fara blandaða leið í tillögum sínum. Í fyrsta lagi að auka heimildir sveitarfélaganna til álagningar útsvars en jafnframt væri hluti af þeirri hækkun jafnaður með því að lækka hlutfall ríkisins í tekjuskatti sem nemur um 1.300 millj. Í öðru lagi var ákveðið að halda áfram þeim jöfnunaraðgerðum sem hófust á síðasta ári. Ég vil taka það fram, vegna þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði að þetta gæti ekki verið varanlegur tekjustofn, að þetta á náttúrlega ekki að vera varanlegur tekjustofn og við hljótum að stefna að því að ástandið verði þannig í byggðamálum að við þurfum ekki að taka upp framlög sem eru túlkuð sem eða heita fólksfækkunarframlög. Þess vegna höfum við lagt til að þessi jöfnun gildi ekki nema í tvö ár en verði síðan skoðuð. Mér finnst það ekki við hæfi að festa slík framlög í sessi og festa það í sessi að við eigum von á að fólki fækki um alla framtíð í sveitarfélögunum. Þess vegna er ekki lagt til að þetta sé varanlegur tekjustofn.

Nefndin lagði á það áherslu í starfi sínu að greina sem best þróun í fjármálum sveitarfélaga á síðasta áratug frá því að síðasta stóra breytingin var gerð á löggjöfinni um tekjustofnana. Þetta var ekki einfalt verk. Sveitarfélögin í landinu eru ekki einsleitur hópur. Stærðarmunur sveitarfélaga er mikill, aðstæður eru mjög mismunandi og búsetuþróunin á síðustu áratug hefur haft mikil áhrif á afkomu sveitarfélaganna. Sums staðar hefur fólki fækkað og þar með fækkar gjaldendum. Annars staðar hefur fólki fjölgað sem kallar í mörgum tilfellum á aukna þjónustu og fjárfestingar en gjaldendur til að standa undir slíku fjölgar þá jafnframt, svo framarlega sem atvinnuástand er gott og tekjur haldast uppi.

Niðurstaðan af þessari greiningu var að mörgu leyti athyglisverð. Ég hleyp á nokkrum atriðum.

Frá 1990 til 1999 hafa bókfærðar skatttekjur sveitarsjóðanna aukist að raungildi um 69% meðan rekstrargjöld að meðtöldum fjármagnsgjöldum hafa aukist um 97,4%.

Hlutfall rekstrargjalda af skatttekjum jókst úr 78,4% árið 1990 í 91,5% árið 1999.

Í ljós kom að allan síðasta áratug voru sveitarsjóðirnir reknir með halla. Mestur var hallinn 8,6 milljarðar árið 1994 en árið 1999, á síðasta ári, var hallinn 2,7 milljarðar. Miðað við fjárhagsáætlanir ársins 2000 verður um áframhaldandi hallarekstur að ræða. Þó er ekki ljóst hvað sá halli verður mikill en alla vega um 3 milljarðar kr. eða þar um kring. Hallareksturinn hefur orðið til þess að heildarskuldir sveitarsjóða voru í árslok 1999 51,8 milljarðar.

Rekstrarafkoma sveitarsjóða á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi hefur versnað mun meira en í Reykjavík og á Reykjanesi. En þrátt fyrir að rekstrarafkoma sveitarsjóða í Reykjavík og á Reykjanesi hafi almennt verið betri hefur fjárhagsstaða þeirra versnað talsvert þegar horft er á peningalega stöðu. Þá þróun má m.a. rekja til meiri fjárfestinga á suðvesturhorninu. Aukinn tilflutningur fólks kallar m.a. á fjárfestingar og aukna þjónustu þó ekki sé hægt að minnka þjónustuna í þeim sveitarfélögum sem fólkið flyst frá.

Áhrif ýmissa laga- og reglugerðarbreytinga hafa leitt til aukinna útgjalda sveitarfélaga án þess að í öllum tilvikum hafi verið tryggt að nægjanlegir tekjustofnar hafi fylgt í kjölfarið. En ég vil taka fram í þessu sambandi að ríkið hefur ekki verið að taka til sín neinar tekjur í þessu. Breytingarnar hafa orðið til þess að tekjur hafa lækkað bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Því veldur t.d. skattfrelsi lífeyrisiðgjalda og annað slíkt. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa tapað tekjum á því en þeir peningar hafa ekki farið í ríkiskassann. Ég vil bara girða fyrir þann misskilning sem mér hefur stundum þótt gæta í þessari umræðu, að þarna sé um einhvern ránsfeng að ræða. Það er alger oftúlkun á málinu.

Hér hefur verið mikið rætt um hvort skynsamlegt hafi verið að binda sig við útsvarið í tillögum tekjustofnanefndar. Það var að sjálfsögðu mikið rætt í nefndinni hvort rétt væri að sveitarfélögin fengju hlutdeild í öðrum tekjustofnum, svo sem virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti, tekjum af umferðinni eða einhverju slíku. Það var alveg skýrt miðað við athuganir nefndarinnar að útsvarsstofninn hefur reynst sveitarfélögum mjög vel. Hann hefur verið stöðugur tekjustofn og vaxið jafnt og þétt allan þennan áratug. Hann er einfaldur og skilvirkur í innheimtu og hefur reynst sveitarfélögunum mjög traustur tekjustofn. Sannleikurinn er sá að við samanburð á tekjustofnakerfinu hér og tekjustofnakerfinu í nágrannalöndunum var samdóma álit og það var ekkert deilt um það í nefndinni --- við lögðum mikla vinnu í þennan samanburð --- að tekjustofnakerfi okkar fyrir sveitarfélögin er einfalt og skilvirkt.

Mér finnst umræðan um þetta hafa einkennst of mikið af því að menn væru að horfa á miklar tekjur af veltu einmitt núna þessi eitt, tvö, þrjú ár. Þessir tekjustofnar eru hins vegar miklu valtari og sveiflukenndari en útsvarið. Þess vegna lagði nefndin ekki til að þessi háttur yrði upp tekinn og leggur til að viðhalda kerfinu í stórum dráttum. Ég vil taka þetta sérstaklega fram vegna þess að eðlilega hafa þessi mál mikið verið í umræðunni. Menn höfðu slíka tekjustofna, t.d. aðstöðugjaldið hér á árum áður, en ég man eftir áralöngum deilum um það gjald. Það endaði með því að það var fellt niður með löggjöf frá Alþingi. Mér finnst hafa gætt of mikilla skammtímasjónarmiða í umræðunni. Útsvarið er traustur tekjustofn. Það sýna allar athuganir sem á þessu hafa verið gerðar og íslenska tekjustofnakerfið er einfalt og skilvirkt kerfi. Mér finnst að við eigum að halda þeim grunni.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um fasteignaskattinn. Það er rétt að þetta var verkefni sem okkur var fengið til að leysa úr og við þurftum auðvitað að koma á samkomulagi um að jafna þetta með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það var samkomulag um það en það lá ekki alveg fyrir hvernig átti að jafna þennan tekjumissi í upphafi en menn náðu þar lendingu að nota jöfnunarsjóðinn í þessu sambandi vegna þess að hann er tæki sem menn hafa í höndunum. Jöfnunarsjóðurinn er tæki sem sveitarfélögin hafa auðvitað fulla aðkomu að, þau hafa mikil áhrif í ráðgjafarnefnd jöfnunarsjóðsins. Sjóðurinn er tæki sveitarfélaganna til að jafna og ég fæ ekki séð að við hefðum átt að búa til eitthvert annað tæki til að jafna á milli sveitarfélaganna, úr því að samkomulag var um það, en Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er nóg af alls konar fyrirbrigðum af þessu tagi í samfélaginu þó að við séum ekki að bæta nýju við í staðinn fyrir jöfnunarsjóð sem sveitarfélögin hafa sem tæki til þess að jafna á milli sín. Mér fannst sjálfsagt og ég held að ekki hafi verið um það deilt að nota jöfnunarsjóðinn til þessara verka.

Mig langar að minnast á fleiri mikilvæg atriði þó að þau komi frv. sem nú er verið að ræða hér kannski ekki beinlínis við. Ég vil taka undir það sem reyndar hefur verið nefnt áður af þeim ræðumönnum sem hafa talað hér á undan, að það er mikilsvert að meta áhrif löggjafar á tekjur sveitarfélaga. Það á eftir að ganga frá því í samvinnu ríkis og sveitarfélaga hvernig þetta verður gert og hvaða aðilar koma til með að gera þetta. Í sumum tilfellum getur þetta verið flókið mál og mikil vinna. Í sumum tilfellum er það minna en við látum ríki og sveitarfélögum eftir að ganga frá því hvernig að því verður staðið. Það er fullkomin samstaða um að taka þetta upp og ég tel það afar mikilvægt. Við teljum líka mikilvægt að það samráð sem verið hefur milli ríkis og sveitarfélaga með fundum í fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga og samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga verði fest í sessi við fjárlagagerð hverju sinni.

[12:00]

Einstakir nefndarmenn höfðu bókanir uppi og einn þeirra situr á Alþingi, hv. 6. þm. Reykn., og ég ætla ekki að orðlengja það neitt. Hann hefur munninn fyrir neðan nefið til að koma þeim bókunum á framfæri sjálfur. Einnig komu fram í skilabréfi bókanir frá Guðmundi Bjarnasyni, bæjarstjóra í Fjarðabyggð, og Ingimundi Sigurpálssyni sem er núverandi forstjóri Eimskipafélagsins. Þær bókanir voru einfaldlega að það hefði átt að ganga lengra og þá var einkum í því sambandi að veita sveitarfélögunum meira svigrúm til þess að ráða við þær skuldir sem þau eru með frá liðnum árum eftir langvarandi hallarekstur.

Ég leyni því ekki neitt að ábyrgð mín á þessum tillöguflutningi er nokkur. Sem formaður nefndarinnar reyndi ég að leiða til lykta eins og ég gat starf hennar. Ég lagði áherslu á að nefndin skilaði tillögum sem næðu fljótt fram að ganga í hv. Alþingi, að menn þyrftu ekki að eyða tíma í það þegar nefndin væri búin að skila að koma sér saman um hve langt ætti að ganga. Auðvitað má lengi deila um það verklag og rætt var um það í nefndinni en niðurstaðan var að það ætti að vera.

Tillögurnar hafa fengið mikla umræðu síðan þær sáu dagsins ljós og gagnrýnin hefur einkum beinst að því að sveitarfélögunum sé ætlað að leysa hluta málsins með auknum álagningarheimildum og ríkið skyldi ekki lækka tekjuskattsprósentuna til fulls á móti.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin þurfi að hafa eitthvert rúm í álagningarheimildum sínum. En það er alveg ljóst að vegna stjórnarskrárákvæða er ekki hægt að létta þakinu af. Það var ljóst. Það hefði verið túlkað sem framsal á skattlagningarvaldi. Hins vegar er ljóst að eitthvert rými stenst í þessu sem er ákveðið af Alþingi, gólf og þak. Ég tel nauðsyn að sveitarfélögin hafi slíkt rými og ég treysti þeim alveg til þess að nýta það. Ég hygg að þau verði að nýta það við þær aðstæður sem nú eru en ég treysti þeim hins vegar alveg til þess að nýta eitthvert rými í þessu efni.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hæstv. félmrh. að aldrei var lagt upp með það að breytt tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga ætti að leysa allt málið. Menn mega ekki falla í þá gryfju þó að afkoma ríkissjóðs sé bærileg um þessar mundir þá hefur margsinnis verið á það bent í umræðum á Alþingi, sem er alveg rétt, að hluti af þeirri afkomu er vegna þenslunnar og aukinnar veltu í samfélaginu. Þess vegna stendur ríkið í rauninni í sömu sporum og sveitarfélögin varðandi það að mikið er af tillögum um það hvernig á að verja þessum fjármunum ríkissjóðs. Ég hef sagt að það eigi að verja þeim til þess að greiða niður skuldir, laga fjárhag ríkissjóðs til að hann verði sterkari í framtíðinni til þess að eiga við verkefni sín. Eigi að síður er ljóst af þessum tekjuafgangi ríkissjóðs að nú þegar verður varið rúmlega 3 milljörðum kr. til þess að koma til móts við þessi verkefni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga en hluti af því er fasteignaskattsmálið sem er afar mikilvægt mál fyrir landsbyggðina og eitthvert mikilvægasta mál sem hefur verið fjallað um í hennar þágu núna um langt skeið.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra að sinni enda er tími minn þrotinn. Ég vil aðeins að lokum segja að hv. 6. þm. Reykn. sagði að aldrei hefði staðið til að þriðji aðilinn, þ.e. skattgreiðendur í landinu, borgaði brúsann ef ég hef tekið rétt niður eftir honum. En menn verða að gá að því að skattgreiðendur í landinu eru líka þeir sem borga til ríkisins þannig að skattgreiðendur borga alltaf brúsann hvar sem það er tekið. Það er ljóst.