Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:06:58 (1472)

2000-11-09 12:06:58# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:06]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka málefnalega ræðu hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni og var ekki við öðru að búast af hans hálfu. Hann fór yfir efnisatriði málsins. Ég vil árétta það sem ég sagði fyrr í umræðunni að að minni hyggju hélt hann prýðilega um stjórn þessarar margnefndu tekjustofnanefndar. Á hinn bóginn er því ekkert að leyna að ég hygg að hann hafi á lokasprettinum verið að vinna starf sitt við ákaflega þröngar pólitískar aðstæður þar sem stjórnarflokkarnir, ráðherrarnir lágu mjög þungt á honum. Ég þori nánast að fullyrða að niðurstaða nefndarinnar er ekki að fullu og öllu í samræmi við væntingar hv. þm. þó hann beri sig sæmilega mannalega hér og geti ekki annað.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að með starfi nefndarinnar var ekki lagt til að ríkið eða nokkur annar borgaði eitt eða annað. Það var einfaldlega fyrir lagt að tekjustofnar stæðu undir verkefnum sveitarfélaga. Síðan kom það í ljós eins og skýrslan ber glöggt vitni um að á sama tíma og tekjur ríkisins hafa stóraukist hafa tekjur sveitarfélaganna líka aukist en í langtum minna mæli og útgjöldin langtum mun meira. Það er það sem blasir einfaldlega við okkur. Ríkissjóður er að skila 30 milljarða kr. afgangi og það er gott og blessað. Sveitarfélögin eru að skila ár eftir ár 2 og 3 milljörðum í halla. Það er viðfangsefnið og það er sú skipting sem er óréttmæt og óraunhæf. Þarna þarf að jafna í millum án þess að skattgreiðendur þurfi að leggja til nýja peninga. Það er kjarni málsins. Ég held satt að segja að hv. þm. sé mér sammála um það og ef hann hefði lausari tauminn þá mundi hann auðvitað greiða brtt. okkar samfylkingarmanna atkvæði sitt.