Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:12:53 (1475)

2000-11-09 12:12:53# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:12]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er ekki neinn hrollur í mér í sjálfu sér. Ég held að þessar tillögur séu tiltölulega sanngjarnar og ég hef þá trú að verkefni sveitarfélaga séu það mikilvæg og það mikilvæg á ýmsum félagslegum sviðum að menn sjái að þau þurfi auknar tekjur. Þær tekjur koma frá almenningi hvort sem það er ríkið eða sveitarfélögin sem leggja þær á.

Það er tilfellið að það er eitt atriði sem er náttúrlega allra mikilvægast í sambandi við framtíðarafkomu sveitarfélaga að það takist að halda uppi launum, kaupmætti í landinu og að tekjur þeirra vaxi í samræmi við það. Þær hafa gert það á undanförnum árum. Útsvarstekjurnar hafa vaxið langt fram yfir verðlagsþróun á síðustu árum. Það er langsamlega mikilvægast að hægt sé að stýra efnahagsmálum þannig að sú þróun haldist. Það er mikilvægt fyrir ríkið en ekki síður mikilvægt fyrir sveitarfélögin. Ef við missum efnahagsþróunina niður þá megum við biðja fyrir okkur, bæði ríkið og sveitarfélögin, þannig að þetta er náttúrlega langmikilvægasta atriðið í öllu saman.