Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:56:35 (1490)

2000-11-09 12:56:35# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, talsmanni Sjálfstfl. í þessu máli, öðrum sjálfstæðismönnum höfum við ekki heyrt í, kom fram að hún leiddi líkur að því að t.d. skattfrelsi lífeyrisiðgjalda hefði ekki eingöngu haft í för með sér skerðingu útsvarstekna heldur líka á tekjuskatti ríkisins. Það er alveg hárrétt. Munurinn er hins vegar sá, og það kom ekki fram í ræðu hv. þm., að ríkisvaldið hafði tækifæri til þess að bæta sér tekjutapið upp og það var gert svo sannarlega. Í fyrsta lagi hækkaði tryggingagjaldsprósentan um 0,5% og í öðru lagi, og það sem kannski er rétt að vekja sérstaka athygli á, að persónuafslætti og öðrum bótagreiðslum var haldið óbreyttum á milli áranna 1995 og 1996, á því tímabili sem við erum að ræða um. Það er rétt að það komi fram, herra forseti, hvernig hv. þm. ræðir um skattleysismörk og annað slíkt.