Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:39:05 (1495)

2000-11-09 13:39:05# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Tillaga Íslands snýst um hvernig skuli framkvæma íslenska ákvæðið svonefnda sem samþykkt var á aðildarríkjaþingi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Kyoto árið 1997 í tengslum við gerð Kyoto-bókunarinnar. Þar með hafði verið samþykkt á vettvangi samningsins að skoða sérstaklega vandamál lítilla hagkerfa þar sem einstök verkefni eins og stóriðjuver auka losun gróðurhúsalofttegunda hlutfallslega mjög mikið. Þannig eykur t.d. 200 þúsund tonna álver losun á Íslandi um 11--13% meðan aukningin frá slíku veri er dropi í hafið í stóru iðnríkjunum.

Tillaga Íslands felur í aðalatriðum í sér að leiði nýtt stóriðjuver eða stækkun eldri vera til þess að losun aukist um meira en 5% þá skuli losunin undanþegin en að því tilskildu að við framleiðsluna séu notaðir endurnýjanlegir orkugjafar.

Eins og fram hefur komið hefur tillagan verið til umfjöllunar í viðræðum við önnur ríki og á vettvangi loftslagssamningsins. Í þessari umræðu er unnið að nánari útfærslu á tillögunni til að ná lausn í málinu sem gerir Íslandi kleift að verða aðili að Kyoto-bókuninni. Ekki er unnt að greina nánar frá þessari vinnu nú, enda verður viðræðum við önnur ríki haldið áfram á aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins og í undirnefnd þess, en þingið hefst, eins og hér kom fram, í Haag í næstu viku og stendur til 25. nóvember. Hvort lausn finnst þar á máli Íslands verður væntanlega ekki einungis háð efni þess heldur og hvernig muni ganga að ná samkomulagi um mörg önnur mál á þinginu í Haag og þar með heildarniðurstöðu um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar.

Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem ríkisstjórnin samþykkti í október 1996 setur markmið um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2000. Áætlunin er byggð á rammasamningnum um loftslagsbreytingar sem undirritaður var í Rio de Janeiro 1992. Á vegum nefndar ráðuneytisstjóra um loftslagsmál er nú unnið að því að gera tillögur um aðgerðir sem taki við af þeirri áætlun sem nú er í gildi og setji markið um aðgerðir fram til ársins 2005, en það er í samræmi við Kyoto-bókunina. Undirbúningur að þeirri tillögugerð gengur vel og er líklegt að tillögur geti legið fyrir fyrri hluta næsta árs. Þær tillögur munu eðlilega taka mið af niðurstöðum aðildarríkjanna í Haag, bæði hvað varðar útfærslu svonefndra sveigjanleikaákvæða og bindingu kolefnis í gróðri, svo og afgreiðslu á íslenska ákvæðinu. Ljóst er að niðurstaða fundarins í Haag mun hafa veruleg áhrif á framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja og er Ísland þar engin undantekning og bíða því öll önnur vestræn ríki með að ganga endanlega frá framkvæmdaáætluninni og að staðfesta bókunina þar til niðurstöður fundarins liggja fyrir.

Fyrsta skuldbindingatímabil Kyoto-bókunarinnar er frá 2008--2012 og þó að enn sé nokkur tími til stefnu og nokkur óvissa ríkjandi um útfærslu Kyoto-bókunarinnar þá taldi stýrihópur ráðuneytisstjóra rétt á síðasta ári að leita ráðgjafar hjá sérstökum ráðgjafarhópi efnahagssérfræðinga á vegum Þjóðhagsstofnunar um hagkvæmar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Skýrsla ráðgjafarhópsins liggur fyrir og hefur verið höfð til hliðsjónar við undirbúning við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar.

Spurt er hvort nýjar vísbendingar um samband loftslagsbreytinga og losunar gróðurhúsalofttegunda hafi að einhverju leyti breytt afstöðu íslenskra stjórnvalda.

Það er og hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda að Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni að því gefnu að ásættanleg lausn finnist á okkar máli þar. Tilteknar skýrslur og spár um gróðurhúsaáhrif breyta því ekki. Stefnan er eftir sem áður að Ísland verði aðili að bókuninni.

Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga að um hugsanlegar loftslagsbreytingar af manna völdum ríkja deilur meðal vísindamanna, m.a. vegna óvissuþátta sem lúta að sumum lykilforsendum þeirra líkana sem stuðst er við þegar reynt er að spá fyrir um slíkar loftslagsbreytingar.

Það hefur verið haft á orði hér á stundum að Íslendingar séu með einhverja stefnu í þessum málaflokkum sem sé Íslendingum til vansa. Við verðum aldrei vör við það, fulltrúar íslensku þjóðarinnar og ríkisins á ferðum okkar erlendis og í viðræðum við erlenda aðila, að nokkrum þyki Íslendingar ganga fram í óhófi eða undarlegum háttum. Þvert á móti er fullur skilningur, góður og mikill skilningur, á stefnu og sjónarmiðum Íslands hvarvetna þar sem við komum á fundi. Hitt er annað mál að menn vilja og þurfa að laga þá þætti að sinni eigin stefnu og vilja auðvitað huga að því hvort sjónarmið Íslands geti gert öðrum ríkjum erfitt fyrir. En skilningur á okkar sjónarmiðum og hvað við leggjum og berum fyrir okkur er mjög ríkur hvar sem við förum um.