Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:44:02 (1496)

2000-11-09 13:44:02# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Stundum líður mér í þessum sal eins og Íslendingar búi á öðrum hnetti en aðrir jarðarbúar. Fyrir liggur að tveir þriðju hlutar losunar gróðarhúsalofttegunda af manna völdum á sér stað í iðnríkjunum. Það er því ekki óeðlilegt að þau, sem eru um leið ríkustu lönd í heimi, axli þyngstu byrðarnar þegar að því kemur að taka fyrsta skrefið á alþjóðlegum vettvangi til þess að minnka losun gróðarhúsalofttegunda.

Íslensk stjórnvöld telja ófært að gerast aðili að Kyoto-bókuninni nema viðunandi niðurstaða náist í sérmálum Íslands eins og það heitir. Um þetta er Samfylkingin ósammála ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Okkur ber siðferðileg skylda til að ganga fram með góðu fordæmi í samfélagi þjóðanna í þessu máli. Þessi siðferðilega og pólitíska krafa er ein og hin sama þótt tveir þriðju hlutar orku okkar séu endurnýjanlegir. Sérstöðupólitík stjórnvalda á sér rætur í stóriðjustefnunni.

Í óútgefinni skýrslu frá ráðgjafarnefnd um minnkun og losun gróðurhúsalofttegunda frá 15. febrúar 1999 má lesa þær ráðleggingar til handa ríkisstjórn Íslands að að því gefnu að ekki verði ráðist í stóriðju umfram þau verkefni sem þá höfðu verið ákveðin, í febrúar 1999, bendir flest til þess að hægt verði að mæta skilyrðum Kyoto-bókunarinnar án þess að það verði mjög íþyngjandi fyrir íslenskt atvinnulíf. Það er merkilegt út af fyrir sig, herra forseti, að þessi skýrsla hefur aldrei verið gefin út.

Til lengri tíma litið á Ísland bjarta framtíð fyrir sér innan rammasamningsins um loftslagsbreytingar. Þess vegna er óskiljanlegt að skammtímahagsmunir skuli látnir ráða ferðinni þegar gengið er til fundar í Haag. Utanríkisstefna Íslands á ekki að snúast um undanþágur heldur ábyrgð en ofurkröfur ríkisstjórnarinnar gera okkur þegar allt kemur til alls stikkfrí í samfélagi þjóðanna.