Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:48:02 (1498)

2000-11-09 13:48:02# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Framganga hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli öllu er vægast sagt umdeilanleg og reyndar má segja það um umhverfismál yfirleitt. Það er því miður þannig að leitun er að þeim undantekningartilvikum þar sem afstaða hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í umhverfismálum er ekki á einn veg, þ.e. vernd náttúru og umhverfis í óhag.

Ísland fékk í Kyoto, og það er kannski ástæða til að rifja það upp, heimild til að auka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert á sama tíma og flestar aðrar þjóðir í sambærilegri stöðu eiga og eru að keppast við að gera ráðstafanir til að draga úr losun. Hér hefur verið stjórnlaus aukning síðan á losun gróðurhúsalofttegunda og enn þá a.m.k., hvað sem fallegum áætlunum líður í skúffum ráðuneyta, eru engir sýnilegir tilburðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda neins staðar.

Við mengum nú þegar síst minna miðað við höfðatölu en aðrar þjóðir gera. Þá staðreynd er oft einnig reynt að fela í tali um svokallaða vistvæna orkugjafa.

Þá verð ég að segja, herra forseti, að tilburðir hæstv. forsrh., dr. Davíðs Oddssonar, til að gera lítið úr niðurstöðum vísindamannahóps Sameinuðu þjóðanna bæta ekki málstað íslensku ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Það er nú einu sinni svo, herra forseti, að það verður ekki alltaf bæði sleppt og haldið. Ísland verður ekki bæði gert að fyrirmyndarríki á sviði umhverfismála, vetnissamfélagi og hvað það nú heitir, en um leið sé það opið hús fyrir alla þá mengandi erlendu stóriðju sem hingað kynni að vilja koma. Þannig er ástandið í dag. Það er opinn faðmur. Komið þið! Komið þið! er sagt við erlenda auðhringa sem hingað vilja koma með mengandi atvinnustarfsemi. Þetta tvennt, herra forseti, fer ekki saman. Þetta heitir að reyna bæði að sleppa og halda.